Dældu sjó um borð í skip

Reykjavíkurhöfn. Mynd úr safni.
Reykjavíkurhöfn. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu fékk þá óhefðbundnu beiðni í kvöld að dæla sjó um borð í skip til að rétta það af, en venjan ef frekar sú að kalla slökkviliðið til í þeim tilgangi að dæla sjó úr skipum.

Slökkviliðið segir að kall hafi borist að höfninni þar sem grunur var um eld, því svartur reykur steig úr ljósavél, en skipið hallaði óeðlilega mikið. Reykurinn var þó ekki út af bruna, heldur vegna þess að olía hafði komist inn á ljósavélina vegna hallans.

Slökkviliðið var að störfum í einn og hálfan klukkutíma við að dæla sjó í skipið þangað til það rétti sig við. Á sama tíma ýtti lóðsinn á það í sama tilgangi. „Þetta er alveg nýtt fyrir okkur,“ sagði slökkviliðmaður sem blaðamaður mbl.is talaði við.

Ekki er vitað hvers vegna skipið tók að halla. Þegar búið var að rétta skipið af tóku skipsdælurnar svo til hendinni við að dæla sjónum úr skipinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert