Dómur ekki birtur vegna rannsóknarhagsmuna

Maður­inn þegar hann var leidd­ur fyr­ir héraðsdóm­ara.
Maður­inn þegar hann var leidd­ur fyr­ir héraðsdóm­ara. Pressphotos

Lögreglan fór fram á frestun birtingar dóms Hæstaréttar þar sem gæsluvarðhaldsúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni, sem er grunaður um að hafa smitað konur af HIV, er staðfestur. Hæstiréttur féllst á að fresta birtingu dómsins og verður hann því ekki birtur á vef dómstólsins strax, eins og venja er.

Hæstiréttur getur ákveðið að fresta útgáfu eða birtingu dóms í máli, þar sem leyst er úr kröfu lögreglu eða ákæruvalds um gæsluvarðhald eða kröfu um heimild til annarra aðgerða við rannsókn máls sem sýnilega verða leynt að fara til að spilla ekki fyrir henni.

Slík frestun skal að öðru jöfnu ekki vera ákveðin til lengri tíma en þriggja mánaða, en Hæstiréttur getur þó að beiðni lögreglu eða ákæruvalds framlengt þann tíma ef ljóst þykir að birting dóms gæti stefnt rannsókn í hættu.

Hæstiréttur Íslands setur sjálfur reglur um útgáfu hæstaréttardóma sem innanríkisráðherra þarf að staðfesta. Í 1. gr. þeirra segir að það sé Hæstiréttur sjálfur sem annist útgáfuna og beri á henni ábyrgð og að dómar skuli gefnir út prentaðir í dómasafni og auk þess birtar á netinu. Í 4. gr. reglnanna er þó kveðið á um undantekningu frá þessu.

Það á við í þessu tilviki, þegar leyst er úr kröfu lögreglu um gæsluvarðhald samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt þeirri málsgrein verður sakborningur aðeins úrskurðaður í gæsluvarðhald að fram sé kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og auk þess verður að ætla að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á samseka eða vitni.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV í gær að lögreglan teldi rökstuddan grun fyrir því að maðurinn hafi vitað að hann væri HIV-jákvæður. Ekki náðist í lögregluna við vinnslu fréttarinnar.

Héraðsdómur úrskurðaði manninn í fjögurra vikna gæsluvarðhald 23. júlí, eða til 20. ágúst næstkomandi.

Maðurinn, sem er hælisleitandi, hafði ekki gengist undir læknisskoðun hér á landi svo vitað sé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert