Bjórsalan fer rólega af stað

Boðið verður upp á bensín og bjór um helgina á …
Boðið verður upp á bensín og bjór um helgina á stöðvum Olís á Hellu og Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg

Bjórsala á bensínstöðvum virðist fara hægt og rólega af stað, en eins og mbl.is greindi frá fyrr í mánuðinum ætl­ar Olís að bjóða upp á bjór um helgina á stöðvum sín­um á leiðinni frá Reykja­vík til Vest­manna­eyja. Bjór er því til sölu á stöðvum félagsins á Hellu og á Selfossi en ekki fékkst leyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir sölu áfengis á stöðinni í Norðlingaholti.

„Það er mjög mikið að gera en ekkert endilega í bjórsölunni,“ segir Birgitta Sævarsdóttir verslunarstjóri Olís á Selfossi. „Enda bjuggumst við ekkert við einhverri holskeflu. Fólk er svona rétt að átta sig á þessu og hér fer allt rólega og vel fram. Þetta verður ekkert til vandræða.“

Bjórinn er ekki geymdur í kælinum eins og hvert annað gos. „Hann er í allt öðrum kæli sem er læstur í þokkabót,“ segir Birgitta.

Verslunarmannahelgarumferðin er byrjuð að láta sjá sig að hennar sögn. „Þetta er rétt að byrja en umferðin stýrist mest af því hvenær ferðir Herjólfs eru. Fjölskyldufólkið kemur til dæmis yfirleitt á föstudeginum. Þá er sérstaklega mikið að gera á mánudagskvöldið og -nóttina þegar þjóðhátíðargestir eru að koma heim.“

Hún segir að tilkoma Landeyjahafnar hafi breytt miklu hvað þetta varðar, en búið er að birgja upp stöðina fyrir komandi helgi. „Hér er allt orðið klárt. Við erum í góðum gír og hvetjum alla til að kíkja við í safaríkan borgara.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert