Utanvegaakstur á borð lögreglu

Rannsókn lögreglu er hafin á utanvegaakstri sem átti sér stað skammt frá Vatnsfellsvirkjun síðastliðið mánudagskvöld. Voru þá tveir franskir ferðamenn staðnir að verki, en annar þeirra hafði ekið jeppabifreið út af veginum og lék sér að því að spóla henni í hringi í svört­um sandi inn­an um viðkvæm­an gróður.

Yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi staðfestir í samtali við mbl.is að málið sé í rannsókn. Segir hann nú unnið að því að finna ferðamennina, en líklegt er að málinu ljúki með sektargerð.

Rætt er við René Biasone, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, í frétt mbl.is frá því í gær. Þar sagði hann það vera jafn alvarlegt að keyra utan vegar í grónu landi og þegar ekið er utan vegar í svörtum sandi. Hvort tveggja er lögbrot sem valdið getur alvarlegu tjóni á viðkvæmri náttúru.

Voru það tveir starfsmenn Landsvirkjunar sem náðu athæfi jeppamannsins á ljósmynd og sagði René aðspurður það „gróft dæmi um utanvegaakstur.“

Skildi eftir sig djúp sár

Kristján Kristinsson, öryggisstjóri Landsvirkjunar, er annar þeirra sem stóð ferðamennina að verki. Voru þeir félagar þá á leið frá Skrokköldu.

„Þá sjáum við hann nánast alveg upp við veginn. Þetta var hreint út sagt fáránlegt að sjá,“ segir Kristján í samtali við mbl.is. „Við stoppuðum og fórum beinustu leið út úr bílnum til þess að taka mynd. En svo lét hann sig hverfa þegar við ætluðum að ná tali af honum.“

Aðspurður segir hann jeppamanninn hafa skilið eftir sig djúp og ljót sár í náttúrunni sem erfitt er að afmá. En líkt og René benti á í fyrri frétt mbl.is er algengur misskilningur að hjólför í sandi jafni sig á skömmum tíma.

„Hann skildi eftir sig djúp sár sem sjást mjög greinilega í náttúrunni enda búinn að róta vel á stórum dekkjum,“ segir Kristján.

Hart tekið á utanvegaakstri

Spurður hvort starfsmenn Landsvirkjunar séu vel vakandi fyrir utanvegaakstri á starfssvæðum fyrirtækisins kveður Kristján já við. „Við fylgjumst mjög grannt með og ef við verðum varir við akstur utan vegar þá tilkynnum við það. Í gegnum árin höfum við víða orðið vitni að slíku.“

Þá segir Kristján alla starfsmenn Landsvirkjunar senda á sérstakt námskeið þar sem meðal annars er fjallað um mikilvægi þess að aka ekki utan vegar. „Allir sem vinna fyrir okkur vita að slíkt er ekki liðið og erum við mjög harðir í þessari stefnu. Eins er það litið mjög alvarlegum augum ef starfsmenn okkar fara ekki eftir reglunni.“

Fyrri fréttir mbl.is:

„Gróft dæmi um utanvegaakstur“

Utanvegaakstur náðist á mynd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert