19 milljarðar greiddir til heimila í dag

Í dag verða greiddir um nítján milljarðar króna úr ríkissjóði til heimila landsins. Um er að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur.

Heildarfjárhæðin sem greidd er út hækkar úr 17,7 milljörðum króna í 19,0 milljarða króna á milli ára. Hækkunin skýrist einkum af ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars sem leiðrétt er með endurgreiðslu. Þá mun ríkissjóður greiða 2,6 milljarða króna í barnabætur 1. nóvember næstkomandi.

Í dag verða greiddir út 2,6 milljarðar króna í barnabætur, 5,9 milljarðar í vaxtabætur og 9,3 milljarðar vegna ofgreiddrar staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars og 845 milljónir vegna ofgreiddrar staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts.

Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 22,4 milljarðar króna en 3,5 milljarðar af henni verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda.

Barnabætur gætu aukist

Fram kemur á vef fjármálaráðuneytisins að greiðslur barnabóta aukast á milli ára og nema tíu milljörðum króna sem er 5,1% aukning frá fyrra ári. Rúmlega 48 þúsund fjölskyldur fá barnabætur á þessu ári sem er 9,5% fækkun frá árinu 2014. Fjárhæð meðalbóta hækkar hins vegar umtalsvert, eða um rúmlega 16% á milli ára en allar fjárhæðir barnabótakerfisins voru hækkaðar verulega í upphafi ársins.

Í álagningu eru ekki reiknaðar barnabætur á þá sem eru með áætlaðan tekjuskattstofn. Vegna þess gætu barnabætur átt eftir að aukast um að minnsta kosti 300 milljarða króna. Hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns hefur farið lækkandi síðustu ár og nemur nú um 3% af heildartekjuskatts- og útsvarsstofni.

Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2014, nema sjö milljörðum króna sem er 12,6% lækkun á milli ára. Almennar vaxtabætur fá tæplega 38 þúsund fjölskyldur á árinu 2015 og fækkar þeim um 10% á milli ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert