Þriggja ára barns leitað í gærkvöldi

Nauthúsagil er skammt frá Seljalandsfossi undir Vestur-Eyjafjöllum.
Nauthúsagil er skammt frá Seljalandsfossi undir Vestur-Eyjafjöllum. mbl.is/Brynjar Gauti

Lögreglan á Hvolsvelli var kölluð út í gærkvöldi vegna þriggja ára gamals barns sem hafði horfið úr bíl foreldra sinna við Nauthúsagil, skammt frá Seljalandsfossi undir Vestur-Eyjafjöllum. Betur fór en á horfðist þar sem barnið fannst fljótlega á rölti í móum þar skammt frá.

Að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli, höfðu foreldrar barnsins rölt inn gilið á níunda tímanum í gærkvöldi en mjög stutt ganga er þar inn. Þar sem barnið var sofandi í bílnum höfðu þau skilið það eftir. Þegar þau sneru aftur var barnið hins vegar horfið úr bílnum og hófu foreldrarnir að leita þess. Þau höfðu samband við lögreglu sem var á leið á staðinn þegar barnið fannst, 20-30 mínútum eftir að hvarf þess uppgötvaðist.

Sveinn segir að í fyrstu hafi verið óttast að barnið hefði farið inn í gilið, en lækur liggur eftir því, en svo reyndist ekki vera heldur hafði það rölt í aðra átt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert