Engin traktorstorfæra á Flúðum í ár

Torfæran hefur notið mikilla vinsælda.
Torfæran hefur notið mikilla vinsælda. mbl.is/Sigurður

Traktorstorfæran fór ekki fram á Flúðum nú í ár, ólíkt því sem oftast er. Keppnin hefur verið vinsæl og fjölmargir áhorfendur hafa látið sjá sig ár hvert. „Það fengust það fáir til að taka þátt að það var ákveðið að blása mótið af, þetta árið,“ segir Elvar Harðarson, sem hefur barist fyrir því að fá að halda torfæruna, við mbl.is.

„Landsamband íslenskra akstursíþrótta gerir kröfu um að það sé klúbbur á þeirra vegum sem haldi keppnina. Þeir gera, að okkur finnst, miklar öryggiskröfur. Það er verið að setja svipaðar kröfur og á sérútbúna götubíla í torfærunni. Munurinn er sá að traktorarnir okkar eru undir 100 hestöflum og fara á tíu kílómetra hraða í vatninu.“

Elvar segir að við auknar kröfur fækki þeim sem vilji taka þátt. „Keppendur þurfa að leggja út í kostnað vegna þess.“ Torfæran hefur verið rosalega vinsæl. „Þetta er bara gert til gamans og við lítum ekki á þetta sem keppni.“ 

Hann segir að fólk á svæðinu sé pirrað vegna þess að þessi skemmtilegi viðburður fari ekki fram í ár. „Þetta hefur alltaf verið rosalega skemmtilegt og okkur finnst eitthvað vanta inn í helgina.“

Elvar lítur björtum augum á framhaldið. „Við vorum að velta fyrir okkur hvort við gætum stofnað félag um torfæruna hérna í sveitinni. Þá gætum við haldið þetta á okkar vegum og reynt þannig að fá okkar kröfur í gegn. Við erum ekkert búnir að gefast upp og ætlum að koma þessu í einhvern farsælan farveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert