„Eru að verða níu mánuðir á spítala“

Myndin er tekin á vökudeildinni rétt áður en þau fóru …
Myndin er tekin á vökudeildinni rétt áður en þau fóru til Boston í aðgerð.

„Ég er í hjartamömmu-hlaupahóp. Neistinn styrkti vel við okkur og á eftir að vera okkur innan handan með næstu skref og við viljum gefa hluta til baka af því sem þau gáfu okkur. Ef maður getur gefið til baka þá gerir maður það,“ segir Jónína Sigríður Grímsdóttir við mbl.is.

Jónína ætlar að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu og safnar í leiðinni styrkjum fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna. Hún og eiginkona hennar, Helga Kristrún Unnarsdóttir, eignuðust strák sem heitir Björgvin Unnar í nóvember í fyrra. Sá stutti var ekki búinn að vera lengi í heiminum þegar hann þurfti að fara til Svíþjóðar.

„Þeir komu og sóttu hann frá Svíþjóð þegar hann var fimm daga gamall, þar sem hann var settur í hjarta- og lungnavél, og við vorum í Svíþjóð í fimm vikur. Aðal undirliggjandi vandinn þegar hann fæddist var þindarslit. Þá voru öll nánast öll kviðarholslíffærin uppi í brjóstholinu og þrengdu að og lungun gátu ekki stækkað. Einnig var gat í hjartanu,“ segir Jónína.

„Einnig var gerð þindarslitsaðgerð og við komum heim rétt fyrir jól. Þá biðum við bara eftir því að hann myndi stækka og verða nógu sterkur til að fara í hjartaaðgerðina.

Jónína segir að hjartagallinn hafi verið það mikill að þau urðu að fara til Boston í aðgerð. „Það var erfitt að eiga við gallann þannig að við fórum til Boston en ekki Svíþjóðar. Þangað fórum við núna í lok mars.“

Hún segist ekki gera ráð fyrir því að Björgvin þurfi að fara aftur út í aðgerð. Eins og staðan er núna dvelja þau á Barnaspítalanum. „Við erum ennþá á Barnaspítalanum en fáum stundum að koma heim í dagsleyfi. Hann er með öndunartúbu í gegnum hálsinn og er súrefnisháður og því er ekki hlaupið að því að fara eitthvað með hann.

Jónína vonast til að komast alfarið heim af spítalanum í september. „Við vonum að hann losni við öndunartúbuna í september en það er erfitt að segja til um það. En það er óskhyggja. Þetta eru að verða níu mánuðir á spítala.

Hér getur fólk styrkt Jónínu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert