Gæti farið í 20 stig í Reykjavík

Veðrið klukkan 15:00 í dag.
Veðrið klukkan 15:00 í dag.

Hiti gæti farið í 20 gráður á höfuðborgarsvæðinu á mánudaginn ef allt gengur eftir í veðrinu næstu daga. Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þó sjaldgæft að hiti nái 20 stigum í Reykjavík.

„Veðrinu er svolítið misskipt, það er næðingur og rigning á Vestfjörðum og norðvestantil á landinu og svolítið blautt í Mýrarboltanum og kalt,“ segir Þorsteinn. Þar á þó að stytta upp og hlýna á morgun.

Veðurvefur mbl.is

„Annars er skýjað með köflum en úrkomulítið um helgina. Á mánudag verður hins vegar aðeins farið að hvessa við suðausturströndina.“ Hann segir þó allar líkur á að úrkoma verði lítil á næstunni og hægur vindur.

„Það er eiginlega bara í dag sem það er næðingssamt á Vestfjörðum. Þar er líka vætusamt í dag, allan daginn. En vonandi léttir til og styttir upp í fyrramálið og fínasta veður á morgun,“ segir Þorsteinn.

Allt að 20 stig á frídag verslunarmanna

Hann segir íbúa höfuðborgarsvæðisins „ekkert geta kvartað“, því hér sé ágætis sumarveður. „Það er skýjað með köflum en þurrt og nokkuð hlýtt yfir daginn.“ Þó var nokkur vindur í gærkvöldi. Þorsteinn segir norðanátt vera yfir landinu sem hafi aðeins minnt á sig í gærkvöldi.

„Það er samt búist við smávætu á höfuðborgarsvæðinu í nótt, sem verður vonandi farin á morgun.“

Víðast hvar annars staðar á landinu er veður með ágætasta móti. Ekki er gert ráð fyrir að rigni á gesti Þjóðhátíðar, auk þess sem útlit er fyrir að hann hangi þurr á Akureyri þangað til seinni partinn á morgun, þegar búast má við dálítilli úrkomu.

„Frídagur verslunarmanna er mjög hlýr og góður hérna suðvestanlands. Það er spáð hátt í 20 stiga hita, ef allt gengur upp,“ segir Þorsteinn, enda mjög sjaldgæft að hiti nái 20 stigum í Reykjavík.

Nánar á veðurvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert