Rólegt veður og hlýnar á morgun

Næstu daga má búast við rólegu veðri og örlítið hærri …
Næstu daga má búast við rólegu veðri og örlítið hærri hitatölum. Styrmir Kári

Búast má við hægviðri á landinu öllu á morgun og bjartviðri á köflum. Stöku skúrir gætu þó orðið í innsveitum. Stytta mun upp á Ísafirði þannig að vel ætti að viðra til mýrarboltasparks auk þess sem Eyjamenn ættu að fá rólegt veður fyrir brekkusönginn. Þó má gera ráð fyrir því að nokkuð svalt verði í Eyjum á morgun og mánudag, en á móti ætti ekki að vera mikill vindur. Á Akureyri og fyrir norðan gæti verið skýjað á morgun, en bjartara inn til landsins. Hiti þar gæti farið upp í 15-17°C eftir hádegi.

Svalt og rólegt veður í Vestmannaeyjum

Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það líti út fyrir að það verði rólegt veður á öllu landinu á morgun. Hitatölur gætu þó víða verið nokkuð lægri en ferðafólk vonaðist eftir og segir hann að í Vestmannaeyjum megi gera ráð fyrir um 8-12°C yfir daginn. Svalara geti orðið þegar líði á nóttina. Segir hann að búast megi við svipuðu veðri á mánudaginn þegar fólk  heldur heim á leið.

Styttir upp á Ísafirði og hiti á Akureyri

Það hefur rignt á Ísafirði í dag, en Björn segir að það líti allt út fyrir að það verði betra veður á morgun. Mögulega verði þó áfram skýjað, en hann gerir ráð fyrir 10-15°C hita. Á Akureyri gætu hitatölur farið allt upp í 15-17°C á morgun og segir Björn að væntanlega verði svipað veður á mánudaginn.

Allt að 17-18°C í Reykjavík

Á Suðurlandi og á Höfuðborgarsvæðinu má gera ráð fyrir allt að 17-18°C hita á morgun, en hæg suðaustan átt er að koma yfir landið.

Talsvert kaldara er upp á hálendi og inn til fjalla, en í dag mældist hiti í Básum t.d. 0,6°C, en Björn segir að það hafi stafað af því að það hafi verið léttskýjað og logn og þá geti hitinn lækkað mjög hratt. Segir hann að almennt megi búast við um 0-5°C á hálendinu í nótt og 7-12°C á morgun. Þá megi gera ráð fyrir einhverjum skúrum, en í minna lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert