Sprengingar ónáða íbúa við Klettaskóla

Jarðvinna fer fram í nokkurra metra fjarlægð frá húsum í …
Jarðvinna fer fram í nokkurra metra fjarlægð frá húsum í Beykihlíð, hægra megin á myndinni. Ljósmynd/Jón Árnason

Íbúar í Suðurhlíðarhverfi í Öskjuhlíð hafa síðustu daga orðið fyrir talsverðu ónæði af jarðvegsvinnu vegna viðbyggingar við Klettaskóla. Síðustu ár hafa þeir mótmælt viðbyggingunni við litlar undirtektir borgaryfirvalda að sögn íbúanna.

Hulda Anna Arngrímsdóttir, íbúi í Beykihlíð 4, segir verktaka á svæðinu hafa hafið sprengingar á klöppinni á svæðinu hinn 21. júlí sl. Íbúar hafi staðið í þeim skilningi að verktakinn hefði svonefnt takmarkað byggingarleyfi, sem kvæði á um aðstöðusköpun fyrir starfsmenn og sýnatöku úr jarðvegi, en ekki fælust í því sprengingar. Hulda telur að Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu sinni, fyrirspurnum um leyfið hefði ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Hús nokkurra íbúanna eru í um sex metra fjarlægð frá vinnusvæðinu.

„Þeir byrjuðu að grafa grunn og einn góðan veðurdag byrjuðu þeir að sprengja. Það vantaði skilti þarna og íbúar voru ekki varaðir við. Þeir eiga að láta íbúa í kring vita hvenær á að sprengja. Um daginn var sprengt fjórum sinnum yfir daginn og unnið lengur en leyfileg er. Þarna var brotin reglugerð um sprengiefni,“ segir Hulda, verktakanum beri að láta vita hvenær sprengingar hefjist og ekki megi sprengja oftar en tvisvar á dag.

Íbúarnir hafa nú kært framkvæmdirnar til umhverfis- og auðlindanefndar Reykjavíkur en hafa ekki fengið svar.

Óánægja með hönnun hússins

Áætlað er að byggðir verði 3.400 fermetrar við Klettaskóla. Í viðbyggingunni er gert ráð fyrir hátíðar- og matsal, tveimur kennslusundlaugum, fullbúnu íþróttahúsi og að stjórnunarálma verði byggð ofan á.

Íbúarnir hafa einna helst mótmælt stærð byggingarinnar, en hlið hennar sem næst er íbúabyggð verður 7,5 metra há, í nokkurra metra fjarlægð frá íbúðarhúsum í nágrenninu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert