Um 3.000 gestir á Siglufirði

Síldarævintýrið á Siglufirði hefur verið haldið undanfarin ár.
Síldarævintýrið á Siglufirði hefur verið haldið undanfarin ár. mbl.is/Sigurður Ægisson

Á bilinu 2.800 til 3.000 gestir eru nú á Siglufirði þar sem Síldarævintýrið fer fram. Hátíðin stílar inn á fjölskyldufólk og er dagskráin að stórum hluta miðuð að áhuga krakka á öllum aldri. Í kvöld lýkur hátíðinni með flugeldasýningu, en þangað til verður meðal annars boðið upp á síldarhlaðborð og þá eru tónleikar á ráðhústorginu og á samkomustöðum í bænum.

Guðmundur Skarphéðinsson heldur utan um framkvæmd hátíðarinnar, en hann segir að hún hafi gengið mjög vel hingað til. Þannig hafi haldist þurrt veður í gær, þótt það hafi verið skýjað og nú sé sólin farin að skína. Hann segir að fjölskyldufólk sé áberandi og að fjölmennt sé á báðum tjaldstæðum bæjarins. Þá sé talsvert um að fólk sé í heimahúsum og nálægum sumarhúsum.

Meðal þess sem hefur verið í gangi í dag var reiðtúr fyrir krakkana, Latibær mætti og Sirkus Íslands sýndi listir sínar. Þá var messa í skógræktinni og stanslaus dagskrá á ráðhústorginu. Svavar Knútur bauð einnig upp á tónleika og núna klukkan fjögur býður Síldarmynjasafnið upp á síldarhlaðborð þar sem gestir og gangandi geta smakkað síld sem komi víða að. Þá er einnig í boði rúgbrauð og hákarl að sögn Guðmundar. „Það geta allir fengið sér að smakka, þetta er voðalega vinsælt hér,“ segir hann.

Í kvöld verður svo hitað upp með allskonar tónlistaratriðum á ráðhústorginu fram að flugeldasýningunni sem fram fer klukkan hálf eitt í nótt. Eftir það leika Matti Matt og Vitleysingarnir fyrir dansi á balli í Allanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert