Á fjögur börn en hefur aðeins tvö hjá sér

Ragnheiður hleypur 10 kílómetra til styrktar Gley-mér-ei.
Ragnheiður hleypur 10 kílómetra til styrktar Gley-mér-ei. Ljósmynd/Hlaupastyrkur

Ragnheiður Ýr Guðjónsdóttir hleypur 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar Gleym-mér-ei. Það er styrktarsjóður sem styrkir málefni tengd missi á meðgöngu. 15. október á hverju ári er haldin sérstök minningarstund. Sjálf á hún fjögur börn en hefur aðeins tvö þeirra hjá sér.

„Ég hleyp fyrir þau af því að ég er sjálf búin að missa barn tvisvar. Þetta félag skiptir mig miklu máli, segir Ragnheiður, við mbl.is. Félagið vinnur að ýmsum málefnum fyrir foreldra sem eiga um sárt að binda. „Við erum að vinna að allskonar málefnum, eins og fyrir síðustu jól söfnuðum við fyrir kælivöggunum sem voru afhentar í byrjun árs. Við erum líka búin að vera að endurbæta duftreitinn í Fossvogskirkjugarði.“

Einnig hefur félagið fjárfest í rúmi fyrir Kristínarherbergi á kvennadeildinni. „Kristínarherbergi er sérherbergi fyrir foreldra sem lenda í því að þurfa að fæða andvana barn. Þá var þetta einkaherbergi sem var útbúið fyrir slíkar aðstæður.“

Gleymist aldrei

Ragnheiður segir að þegar hún hafi fyrst misst barn, árið 2010, hafi lítill stuðningur verið í boði. „Ég hafði heimasíðuna draumabörn en þar vorum við nokkrar að tala og konurnar þar hjálpuðu mér í gegnum þetta allt saman. Þar var lokaður hópur sem hét englarnir okkar. Við komum þar nokkrar saman sem vorum búnar að missa á meðgöngu og hjálpuðum hver annarri.“

Hún bendir á að margar konur sem hafi lent í sömu lífsreynslu séu í stuðningshóp á facebook. „Ég bý á Akureyri og ég hef látið þær á sjúkrahúsinu vita að það megi hafa samband við mig ef foreldrar vilja tala við einhvern sem deilir sömu reynslu. Þegar þú lendir í þessu finnst þér þú vera rosa einn. Mér fannst rosalega mikilvægt að tala við einhvern sem vissi nákvæmlega hvernig mér leið.“

Ragnheiður hefur eignast tvö heilbrigð börn. „Ég á tvö lifandi og heilbrigð börn. Þetta er eitthvað sem þú lærir að lifa með, eitthvað sem gleymist aldrei. Reynslan verður alltaf partur af lífinu en með tímanum lærist þetta.“

Hægt er að heita á Ragnheiði hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert