„Fólk fer stundum of snemma af stað“

Einhverjir blésu þegar þeir komu úr Herjólfi.
Einhverjir blésu þegar þeir komu úr Herjólfi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Fólk er búið að blása í bunkum í allan dag. Við höfum verið með mannskap í Landeyjahöfn og einnig uppi á þjóðvegi,“ segir Sveinn K. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, við mbl.is. Lögreglan á Suðurlandi hefur fylgst vel með því í dag að enginn aki undir áhrifum og fólk aki ekki of snemma af stað eftir skemmtanir helgarinnar.

„Oft er fólk einfaldlega að fara of snemma af stað. Fólk á að bíða í að minnsta kosti 12 tíma en ef þú ert búinn að vera við drykkju heila helgi þarftu meira en það. Fólk fer stundum allt of snemma af stað,“ segir Sveinn.

Að sögn Sveins voru á milli 15 og 20 ökumenn sem mældust yfir leyfilegum mörkum. „Allt í allt blésu ökumenn hátt í 700 bifreiða hjá okkur í dag.“

Sveinn segir að umferðin í dag hafi að mestu leyti gengið afar vel. „Umferðin er búin að vera furðugóð og er ekkert ofsalega þung. Það hafa orðið tvö óhöpp í dag, annað á Suðurstrandarvegi en hitt við Stóru Laxá.“ Hann bætir við að bæði óhöppin hafi verið minniháttar en þó þurfti að flytja þrjá á slysadeild eftir slysið við Stóru Laxá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert