Golfarar söfnuðu milljón - Myndir

Aron Snær Júlíusson sigraði í Einvíginu á Nesinu að viðstöddu fjölmenni í blíðskaparveðri í dag. Einvígið er árlegt góðgerðarmót Nesklúbbsins og DHL Express á Íslandi.

Venju samkvæmt var 10 af bestu kylfingum landsins boðið til leiks og í mótslok afhenti fulltrúi DHL á Íslandi  BUGL, barna og unglingageðdeild Landspítalans, eina milljón króna.

Mótið var með hefðbundnu sniði þar sem einn kylfingur féll úr leik á herri holu, þar til tveir stóðu eftir á teig á lokaholunni. Aron og Birgir Leifur Hafþórsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, stóðu tveir eftir á 9. teig þar sem úrslitin réðust.

Í tilkynningu frá Golfsambandi Íslands segir að Aron hafi slegið bolta sinn í upphafshögginu á 9. braut vinstra megin við flötina á holunni sem er par 4 hola. Birgir Leifur sló út fyrir vallarmörk í fyrra upphafshögginu og það síðara, sem var þá hans þriðja högg, endaði rétt við holuna. Hann setti síðan niður púttið fyrir pari og Aron fékk einnig par.

Þeir félagar úr GKG fengu síðan það verkefni að slá af um 130 metra færi inn á 9. flötina og úrslitin réðust með því að Aron sló nær holu en Birgir. Þetta er í fyrsta sinn sem Aron sigrar í þessu móti en hann þykir vera á meðal efnilegustu kylfinga landsins.

Frétt mbl.is: Aron sigraði í Einvíginu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert