Loðinn, feitur og kjagandi um

Selir vilja almennt vera nálægt vatni, en kópurinn sem fannst …
Selir vilja almennt vera nálægt vatni, en kópurinn sem fannst á tjaldsvæðinu vildi greinilega prófa eitthvað nýtt. Ómar Óskarsson

Starfsmaður tjaldsvæðisins í Laugardal trúði fyrst ekki gestunum sem komu til hennar og tilkynntu að selur væri á vappi á  tjaldsvæðinu upp úr klukkan 6 í morgun. Konan, sem heitir Leah Yeung og hefur unnið sem næturvörður í allt sumar og er frá Írlandi, lýsti því þannig að um tjaldsvæðið hefði þetta litla mjúka dýr ráfað, en fljótlega hafi hún þó komist að því að selkópar væru alls ekkert svo litlir í sjálfu sér, allavega ekki léttir.

Í samtali við mbl.is sagði Yeung að gestir tjaldsvæðisins hafi komið til hennar rétt eftir sex í morgun og tilkynnt um sel. Fyrstu viðbrögð hennar hafi verið þau að um einhverskonar tungumálaörðuleika væri að ræða, en þegar gestirnir fóru að gefa frá sér selahljóð til nánari skýringar var ljóst um hvað var að ræða.

„Loðinn feitur selur kjagandi um“

Þegar Yeung kom á tjaldsvæðið blasti við henni „loðinn feitur selur kjagandi um“ (e. fluffy fat seal, flapping about). Þá hafi strax komið í ljós að dýrið gæti bitið og þurfti því að fara varlega að honum.

Fjórir tjaldgestir sem höfðu fyrst orðið selsins varir hjálpuðu henni við að koma dýrinu að afgreiðslunni, en þar ætluðu þau að gefa kópnum vatn og bíða með hann þangað til lögreglan kæmi á staðinn. Bæði þótti vissara að hafa hann í augnsýn svo hann færi ekki að hrella aðra gesti staðarins og svo gæti hann einnig skráð sig inn á svæðið á hefðbundinn hátt þar.

Vegna þyngdar kópsins var ekki hægt að bera hann venjulega, heldur þurfti að finna segldúk sem kópurinn var látinn í og þannig borinn að afgreiðslunni. Segir Yeung að bæði hafi selurinn hreyft sig mjög hratt og erfitt hafi verið að ná utan um hann. Þá reyndi hann að bíta í gegnum dúkinn, en engan hafi sakað.

Eins og glæpamaður

Fljótlega þegar komið var í afgreiðsluna varð kópurinn þó eitthvað hræddur við fólkið í kringum sig og fór hann þá aftur á stjá og endaði við grillsvæði tjaldsvæðisins. Lögreglan kom stuttu seinna á svæðið og lýsti konan því þannig á gamansaman hátt að hann hefði verið settur í baksætið eins og einhver glæpamaður. Reyndar má velta því fyrir sér hvort kópurinn hafi ekki verið brotlegur, því væntanlega hefur hann brotið í bága við reglur um lausagöngu dýra.

Í öllum hamaganginum náði Yeung aðeins einni mynd, sem fylgir fréttinni, en hún segir að það hafi verið í nógu að snúast og það hafi eiginlega ekki verið fyrr en þegar selurinn var farinn að hún fór að sjá eftir því að hafa ekki náð fleiri myndum.

Hún segir að kópurinn hafi væntanlega verið nokkuð lengi á svæðinu, því gestir tilkynntu um eitthvað sem virtist vera dýr klukkan fjögur í morgun. Tjaldgesturinn sá þó mjög ógreinilega hvað væri þar á ferð, enda hafi það sem hann taldi vera einhverskonar dýr hreyft sig mjög hratt. Yeung sagðist aftur á móti hafa tekið öllu slíku með fyrirvara, enda mismunandi sögur sem hún fær að heyra svona seint á nóttunni þegar það er frídagur daginn eftir.

Vildi bara komast í frí á frídegi verslunarmanna

Þorsteinn Eyfjörð, vaktstjóri tjaldsvæðisins, segir í samtali við mbl.is að nú í morgun hafi gestir talsvert rætt þennan nýja ferðalang og þá hafi verið gaman að sjá mikla samheldni gesta þegar óboðni gesturinn fannst og hvernig hjálpast var við að koma honum frá tjaldsvæðinu sjálfu. „Það eru allir frekar spenntir. Sjaldan sem maður sér sel þegar maður vaknar í morgunsárið,“ segir Þorsteinn.

Hann á ekki von á að einhverjir gestir sofi ekki rótt næstu nætur enda enginn skelkaður yfir atburðinum. Segir hann líklegast að kópurinn hafi bara aðeins viljað skemmta sér og því ákveðið að enda á tjaldsvæðinu. „Held að hann hafi bara viljað komast í frí eins og aðrir á þessum frídegi,“ segir Þorsteinn hlægjandi.

Selurinn fór aftur á stjá þegar komið var að afgreiðslunni …
Selurinn fór aftur á stjá þegar komið var að afgreiðslunni og honum var ekki lengur haldið í plastdúknum. Mynd/Leah Yeung
Selurinn fannst á tjaldsvæðinu í Laugardal.
Selurinn fannst á tjaldsvæðinu í Laugardal. Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert