Guðmunda Elíasdóttir látin

Guðmunda á heimili sínu við Vesturgötu.
Guðmunda á heimili sínu við Vesturgötu. Sverrir Vilhelmsson

Guðmunda Elíasdóttir óperusöngkona er látin, 95 ára að aldri. Guðmunda var ein af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar. Hún tók þátt í fjölda leiksýninga og ópera og söng inn á margar hljómplötur. Einnig söng Guðmunda víða erlendis, meðal annars við hátíðarmessu á jólum í Hvíta húsinu.

Þetta kemur fram á vef RÚV.

Guðmunda fæddist á Bolungarvík 23. janúar 1920. Hún lærði söng í Kaupmannahöfn og Frakklandi og bjó meðal annars í Bandaríkjunum og Kanada og starfaði við list sína.

Á níræðisafmæli sínu sagði hún í viðtali við Morgunblaðið að hún ætti 700 plötur með óperum. Guðmunda kenndi söng áratugum saman, lengst af í tónlistarskólanum á Akranesi og Söngskólanum í Reykjavík. „Þetta var ást lífs míns,“ sagði Guðmunda þegar hún var spurð hvort söngkennsla væri skemmtilegt starf.

Í frétt RÚV segir ennfremur að Guðmunda er Íslendingum af eldri kynslóðinni er minnisstæð í hlutverkum á borð við Madame Flora í Miðlinum eftir Menotti og sem Maddalina í Rigoletto eftir Verdi. 

Ingólfur Margeirsson ritaði ævisögu Guðmundu, Lífsjátninguna, sem kom fyrst út árið 1981 og var endurútgefin árið 2011. Egill Helgason ræddi við Guðmundu þegar Lífsjátningin var endurútgefin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert