Ein tilkynning um kynferðisbrot á Vestfjörðum

Ísafjörður.
Ísafjörður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Lögreglunni á Vestfjörðum barst ein tilkynning um kynferðisbrot um verslunarmannahelgina. Vegna rannsóknahagsmuna er ekki hægt að gefa nánari upplýsingar um það mál að svo komnu.

Aðfaranótt 1. ágúst gisti einn ungur maður fangageymslu á lögreglustöðinni á Ísafirði eftir að hafa verið handtekinn, ölóður, fyrir utan veitingastað í bænum. Hann var látinn sofa úr sér vímuna.

Þá sömu nótt var lögreglu tilkynnt um að hópur gangandi fólks hafi lamið íbúðarhús eitt og mannlausa bifreið sem þar stóð fyrir utan, n.t.t. við Aðalstræti á Ísafirði. Tilkynningin barst eftir að fólkið hafði farið af vettvangi.

Með þessu háttarlagi var íbúanum og bifreiðaeigandanum valdið skaða. Hurð á sólpalli var brotin og tvær beyglur mynduðust á bifreiðinni. Þeir sem búa yfir upplýsingum um hvaða fólk var hér um að ræða er beðið um að hafa samband við lögregluna á Vestfjörðum í síma 444 0400.

Aðfaranótt 2. ágúst var lögregla og sjúkraflutningamenn kölluð að gistihúsi á Ísafirði þar sem ungur ferðamaður var ósjálfbjarga og virtist mjög veikur. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði og fékk viðeigandi aðhlynningu þar. Í ljós kom að maðurinn hafði tekið inn fíkniefnið MDMA.

Stöðvuðu unga ökumenn

Um miðjan dag þann 2. ágúst stöðvuðu lögreglumenn ökumann fólksbifreiðar á Ísafirði. Grunur hafði vaknað um að ökumaður væri ekki í ástandi til að aka. Sá grunur reyndist á rökum reistur þegar ökumaðurinn lét í té þvagsýni. Í bifreiðinni fundust fíkniefni og neysluáhöld, eins höfðu farþegar, sem voru fjórir ungir menn, kastað út úr bifreiðinni fíkniefnum, n.t.t. ætluðu amfetamíni.

Lögreglumenn sáu það gerast og var lagt hald á efnið sem og það sem fannst við leit í bifreiðinni. Ökumaður og farþegarnir fjórir voru allir handteknir en þeim sleppt lausum að yfirheyrslum loknum. Ökumaður fékk að sjálfsögðu ekki að halda akstrinum áfram. Lögreglan á Vestfjörðum vann að fjórum öðrum fíkniefnamálum í liðinni viku. Húsleitir voru framkvæmdar í bifreiðum og í tveimur húsum. Lítilræði af fíkniefnum fundust við rannsókn þessara þessum fimm mála, aðallega kannabisefni og amfetamín.

Aðfaranótt 3. ágúst hafði lögreglan afskipti af alls 8 ungmennum sem voru á dansleik á Ísafirði án þess að hafa haft aldur til að vera þar inni. En aldurstakmark var 18 ár. Ýmist var um að ræða ungmenni sem höfðu framvísað röngum eða fölsuðum skilríkjum eða komist inn á dansleik með öðrum hætti. Þessi mál eru til skoðunar m.a. m.t.t. dyravörslunnar.

Ekið á tvær kindur

Tvær tilkynningar bárust þess efnis að ekið hafi verið á kindur. Í báðum tilvikum var um að ræða vegi í Strandasýslu.

Tilkynnt var um eina líkamsárás til lögreglunnar á Vestfjörðum. Hún mun hafa átt sér stað á dansleik á Ísafirði aðfaranótt 1. ágúst sl.

Lögreglan á Vestfjörðum hefur að undanförnu aukið eftirlit sitt með rekstraaðilum gististaða í umdæminu. Við það eftirlit reyndist einn gististaður ekki hafa sótt um viðeigandi leyfi. Í því sambandi er bent á Sýslumanninn á Vestfjörðum, sem gefur út öll rekstrarleyfi af þessu tagi.

Höfð voru afskipti af einum ungum ökumanni í vikunni. Sá var á óskráðu bifhjóli og án ökuréttinda. Akstur hans var stöðvaður og foreldrum gert viðvart.

Fimm umferðaróhöpp í vikunni

Tilkynnt var um fimm umferðaróhöpp í liðinni viku til lögreglunnar á Vestfjörðum. Það fyrsta var að morgni 28. júlí sl. þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni, út fyrir veg og fór hún a.m.k. eina veltu. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, slapp án teljandi meiðsla. Þetta var á Ennishálsi í Strandasýslu.

Annað var sama dag þegar vörubifreið með vatnstank rann út af veginum að Rauðasandi. Ökumann, sem var einsamall í bifreiðinni, sakaði ekki.

Það þriðja var aðfaranótt 29. júlí sl. þegar fólksbifreið lenti út af veginum í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Einn farþegi var í bifreiðinni, auk ökumanns. Bifreiðin hafnaði á hvolfi í fjörunni, neðan vegarins. Sjúkraflutningamenn og lögreglumenn, sem komu á staðinn, losuðu ökumann og farþega úr bifreiðinni og voru þeir fluttir á sjúkrahúsið á Ísafirði og í framhaldinu með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem þeir gengust undir aðgerð. Ekki mun þó hafa verið um lífshættulega áverka að ræða.

Það fjórða var síðla dags þann 30. júlí sl. en þá valt jeppabifreið út af Örlygshafnarvegi og fór a.m.k. eina veltu. Tveir ökumenn voru í bifreiðinni, auk ökumanns. Annar farþeginn var fluttur á sjúkrahúsið á Patreksfirði með minni háttar áverka.

Það fimmta var um miðjan dag þann 1. ágúst þegar ökumaður missti stjórn á bifreið sinni á Hjallahálsi í Barðastrandasýslu. Bifreiðin fór eina veltu. Ökumaður, sem var einsamall í bifreiðinni, slapp án teljandi meiðsla.

Þyrla sóttu mjaðmargrindarbrotinn

Þyrla LHG var kölluð að Snæfjallaströnd síðla dags þann 31. júlí sl. vegna gangandi vegfaranda sem hafði dottið og mjaðmagrindabrotnað. Viðkomandi var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík.

Fjórir ökumenn voru kærðir í liðinni viku fyrir að nota farsíma án handfrjálsbúnaðar.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis og sá þriðji fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna.

46 ökumenn voru kærðir í liðinni viku á Vestfjörðum fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða. Einn ökumaður var tekinn í tvígang og samanlögð sekt sem hann hlýtur nemur 65.000 kr.

Í gærkveldi barst neyðarkall frá ferðamanni sem var einsamall á ferð í Jökulfjörðum. Hann hafði villst í þoku og kominn í vanda. Björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum í Bolungarvík, Hnífsdal og Ísafirði fóru manninum til aðstoðar og komu honum til byggða. Hann sakaði ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert