Sjúkdómurinn ágerðist mjög hratt

Mæðginin Aron og Inga Sigga.
Mæðginin Aron og Inga Sigga. Ljósmynd/Aron Guðmundsson

Aron Guðmundsson hleypur 21,1 km í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar MND-félaginu. Móðir Arons, Inga Sigga, lést af völdum taugahrörnunarsjúkdómsins MND í byrjun júlímánaðar eftir rúmlega tveggja ára baráttu við sjúkdóminn.

Aron, sem er fæddur og uppalinn á Ísafirði, hefur þegar safnað 336 þúsund krónum, sem skilar honum fjórða sæti yfir þá einstaklinga sem hafa safnað mestu, en í fyrra var hann sá hlaupari sem næstmestu safnaði, eða 1,6 milljónum króna.

„Ég ætlaði að hjálpa til því það er alveg sama hvað þú ert að safna mikið, þú ert allavega að safna pening og hjálpa til. Ég geri mér grein fyrir því að það getur reynst erfitt að ná 1,6 milljónum kr. aftur en ég er duglegur að koma mér á framfæri og pirra fólk,“ segir Aron og bætir við að það sé mikilvægur þáttur í söfnuninni að vera virkur á Facebook til að minna fólk á.

„Mamma greindist fyrir tveimur og hálfu ári, og þetta skeði mjög fljótt. Þegar hún sagði mér frá þessu voru engin þannig séð einkenni komin fram, en síðan ágerist sjúkdómurinn mjög hratt. Hún byrjar að missa málið, sjúkdómurinn kom fram í talfærunum og gerði henni erfitt með að tala og kyngja,“ segir Aron en sjúkdómurinn ágerðist mikið og hratt.

„Hún byrjar svo að missa mátt í löppunum og undir það seinasta var mátturinn í annarri hendinni alveg farinn og sjóninni farið að hraka. Sjúkdómurinn ræðst á hreyfitaugarnar og sjúklingurinn er fangi í eigin líkama. En hann hafði ekki áhrif á hennar hug,“ segir hann.

Aron starfar um þessar mundir hjá Eimskip á Ísafirði en hann hyggur á nám í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands í haust. Hann ætlar sér að hlaupa hálfmaraþonið á betri tíma en í fyrra, þegar hann hljóp á 1:57.

Aron Guðmundsson og móðir hans, Inga Sigga, sem lést af …
Aron Guðmundsson og móðir hans, Inga Sigga, sem lést af völdum taugahrörnunarsjúkdómsins MND í byrjun síðasta mánaðar. Ljósmynd/Aron Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert