Sérsveitin handtók fjögur ungmenni

Frá Þingvöllum - ungmennin voru að skjóta við Tóftir sem …
Frá Þingvöllum - ungmennin voru að skjóta við Tóftir sem er við Þingvallavatn. mbl.is/Styrmir Kári

Sérsveit lögreglunnar handtók fjögur ungmenni seint í gærkvöldi en þau höfðu verið að skjóta úr loftriffli og litlum riffli við Þingvallavatn þar sem fólk var við veiðar. 

Að sögn varðstjóra í lögreglunni á Selfossi voru það stangveiðimenn sem voru við veiðar í Þingvallavatni sem tilkynntu um skothvelli og að ungmennin virtust vera að leika sér að skjóta úr rifflunum við vatnið. Þegar lögreglan kom að Tóftum þar sem ungmennin höfðu verið voru þau farin í burtu á bíl. Þau voru síðan handtekin á Mosfellsheiði á leið til Reykjavíkur.

Vopnin eru í eigu föður eins þeirra og virðist sem þau hafi verið tekin í leyfisleysi en unnið er að rannsókn málsins. 

Mikill erill hefur verið undanfarinn sólarhring hjá lögreglunni á Suðurlandi og margir teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna, að sögn varðstjóra í lögreglunni á Selfossi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert