Krýsuvíkursvæðið á Reykjanesi er ört vaxandi ferðamannastaður og við Seltún í Krýsuvík má nú fá sér súpu og fleira góðgæti eftir að Jónína Gunnarsdóttir fékk leyfi til þess að reka þar súpubílinn Farmer's Soup til reynslu í tvo mánuði.
Jónína keypti súpubílinn í Þýskalandi og var með hann á Skólavörðuholti í Reykjavík í fyrrasumar við góðar undirtektir viðskiptavina. Hún fékk ekki leyfi frá borginni til þess að vera þar áfram í sumar en var úthlutað plássi fyrir framan Seðlabankann gegnt Hörpu, sem gildir til 15. október.
Í umfjöllun um súpubílinn í Morgunblaðinu í dag segir Gylfi Ingason matreiðslumeistari, sem rekur bílinn með Jónínu, að það hafi ekki reynst góður staður, því þrátt fyrir mikinn umgang sé fólk þar almennt að flýta sér og gefi sér ekki tíma til þess að stoppa. Þegar Hafnarfjarðarbær hafi veitt henni leyfi til að vera með bílinn í Krýsuvík með skömmum fyrirvara hafi þau ákveðið að láta á það reyna.