Hápunktur Hólahátíðar á morgun

Við upphaf pílagrímsgöngu.
Við upphaf pílagrímsgöngu. mbl.is/Guðni Einarsson

Hólahátíð er haldin á Hólum í Hjaltadal um helgina. Hátíðin er kirkjuhátíð og nær hún hápunkti á morgun með hátíðarkaffi og vígslu nýs prests í embættið á Hólum. Gestir sem taka þátt í hátíðinni gengu pílagrímsgöngu í dag, í sex og hálfa klukkustund.

„Við erum nýkomin úr pílagrímsgöngu sem hófst hjá Gröf og ég er einfaldlega í sæluvímu. Gangan hófst við altarið í Grafarkirkju og við gengum í sex og hálfan tíma að altari Hóladómkirkju,“ sagði Sólveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup á Hólum, við mbl.is.

„Að göngu lokinni borðum við kvöldmat þar sem snæddur verður Biblíumatur. Það er mjög spennandi en séra Svavar Alfreð Jónsson, prestur á Akureyri, gaf út bók fyrir síðustu jól sem kallast Biblíumatur. Við gáfum kokknum á Hólum þessa bók og hún býr til gómsæta rétti úr bókinni.“

Sólveig segir að Biblíumaturinn sé algjört hnossgæti. Meðal þess sem er á boðsstólnum er brúðkaupssúpa, fylltir laukar að hætti hirðingjans, hvítvínssoðinn fiskur í lauk- og hunangssósu og silungur fiskimannanna og fleira góðgæti.

Að sögn Sólveigar eru gestir á bilinu 150-200 en eins og áður segir nær hátíðin hápunkti sínum á morgun. „Aðalhátíðin er á morgun. Þá verður prestvígsla eftir hádegið þegar Halla Rut Stefánsdóttir verður vígð til að gegna prestþjónustu á Hólum. Að því loknu er veislukaffi og síðan er hátíðarsamkoma þar sem innanríkisráðherra heldur ræðu.“ Að sögn Sólveigar eru gestir á bilinu 150-200.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert