Greiningin var mikið áfall

Inga María ætlar að hlaupa 10 kílómetra og lætur sjúkdóminn …
Inga María ætlar að hlaupa 10 kílómetra og lætur sjúkdóminn ekki stoppa sig. ljósmynd/Úr einkasafni

Inga María Björgvinsdóttir var aðeins sautján ára gömul þegar hún greindist með MS í desember sl. Hún var nýkomin með bílpróf og gat ekki keyrt bíl í tvo mánuði vegna sjúkdómsins. Inga María ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag til styrktar MS-félaginu, enda segir hún allt vera hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Grunaði ekki að hún væri með sjúkdóm

„Ég varð sautján ára í september og fékk fyrsta kastið mitt í október. Þá missti ég alla tilfinningu fyrir neðan mitti og fann ekki fyrir neinu auk þess sem ég var með ofskynjanir og kuldatilfinningu,“ segir Inga María, sem hafði ekki hugmynd um að hún gæti verið með sjúkdóm. „Ég sagði mömmu frá þessu og hún sagði mér bara að taka íbúfen og hélt að þetta væri því ég væri of mikið í tölvunni eða eitthvað.“

Á nokkrum dögum jókst vanlíðanin hjá Ingu Maríu og á endanum fór hún upp á sjúkrahús, þar sem hún bjóst við því að fá að heyra að hún væri með klemmda taug. Læknirinn færði henni þó þær fréttir að hún væri líklega með MS, sem hún segir hafa verið mikið áfall. Faðir hennar sem býr erlendis flaug beint heim, og tók fjölskyldan saman á þessum erfiðu fréttum.

Fimm dögum seinna tóku læknar greininguna hins vegar til baka.

„Ég var búin að eiga fimm mjög erfiða daga svo það var aftur mikið áfall þegar þeir tóku greininguna til baka,“ segir Inga María, en bætir við að kirkjustarf hafi hjálpað henni mikið. „Ég fór mjög mikið í kirkju og strax eftir að ég kom heim af spítalanum fór ég á samkomu. Það var búið að biðja mikið fyrir mér svo við litum jákvætt á það þegar greiningin var tekin til baka.“

Í desember fékk Inga María þó aftur kast, og þá staðfestu læknarnir að hún væri með MS.

„Þá varð ég dofin í puttunum og lappirnar á mér voru mjög þungar. Ég þurfti að fara í sterameðferð og gat ekkert keyrt á þeim tíma,“ segir hún, en öll viðbrögð eru hæg þegar hún er í kasti. „Upp á öryggisatriði vildu læknarnir ekki að ég myndi keyra svo ég keyrði ekkert í tvo mánuði eftir þetta.“

Hún segist lítið hafa vitað um MS, en segir endanlegu greininguna þó ekki hafa verið jafn mikið áfall og þá fyrri. Meiri áhyggjur hafi hún haft af skólanum. „Ég var nýbyrjuð í hárgreiðslu en féll á mætingu því ég var alltaf á spítalanum. Ég ákvað því að taka mér pásu í eina önn og fór að vinna, en er að byrja núna aftur í Flensborgarskólanum,“ segir hún.

Ákvað að hugsa ekki um sjúkdóminn

Inga María segist fljótlega hafa farið að gera alla hluti sem hún gerði áður en hún greindist með sjúkdóminn, og hún hafi ákveðið að hugsa ekki um hann. „En svo koma tímar eins og einu sinni þegar ég var að keyra á samkomu í kirkjunni með ungliðaleiðtoganum mínum og áttaði mig á því að ég væri með sjúkdóm sem var ekkert að fara. Þá brotnaði ég niður og fór að gráta, en það er í raun eina skiptið sem ég hef grátið almennilega yfir þessu.“

Köstin hafa haldið áfram að koma á eins og hálfs til tveggja mánaða fresti. Í febrúar fékk Inga María því þriðja kastið og datt í mikið þunglyndi í kjölfarið. „Ég svaf og var bara með símann á silent sem er mjög óvenjulegt fyrir mig,“ útskýrir hún. 

Mun fara þó hún þurfi að labba

Það var móðir Ingu Maríu sem stakk upp á því að hún tæki þátt í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar MS-félaginu, en hún segist aldrei hafa verið mikil íþróttamanneskja. „Ég er sú eina í fjölskyldunni sem er ekki í íþróttum og hleyp ekki mikið svo þetta verður mikil áskorun fyrir mig. En ég ákvað að skrá mig áður en ég hugsaði þetta svo mér myndi ekki snúast hugur.“

Inga María fór að vinna fyrir vestan í sumar, en um verslunarmannahelgina fór hún aftur að finna fyrir óþægindum í fótunum. „Ég var byrjuð að æfa fyrir hlaupið og fór að finna að ég gæti ekki hlaupið án þess að vera búin á því strax. Þá kom í ljós að ég var aftur að fá kast.“

Það var ekki fyrr en síðasta laugardag sem Inga María gat því farið að æfa aftur, en hún hafði þá ekkert hlaupið fyrr en fyrir verslunarmannahelgina. „Ég byrjaði að æfa fyrir vestan og var komin á gott ról en svo kom þetta bakslag svo ég er ennþá smá dofin í löppunum,“ segir hún en neitar að láta það hafa áhrif á þátttöku sína í Reykjavíkurmaraþoninu. „Ég mun fara þessa tíu kílómetra hvort sem ég mun hlaupa, skokka eða labba.“

Inga María segist ekki vera stressuð fyrir hlaupinu. „Ég var að byrja í skóla og er meira stressuð fyrir því,“ segir hún og hlær. „En ég hlakka til að klára þetta.“

Markmið söfnunar hennar voru 50 þúsund krónur, og hefur hún þegar náð því. „Þetta er ekkert smá mikill stuðningur og ég er ótrúlega ánægð,“ segir hún og bætir við að stuðningur fjölskyldu sinnar hafi verið ómetanlegur.

„Ef þetta ætti að koma fyrir einhvern, af hverju þá ekki mig?“

Inga María þarf að passa vel upp á sig, en álag og svefnleysi hafa mest áhrif á sjúkdóminn. Hún segir það því stundum erfitt að vera unglingur með MS, þar sem stundum sé lítið um svefn. Hún tekur sjúkdómnum þó af miklu æðruleysi, sem vekur athygli blaðamanns. „Ef þetta ætti að koma fyrir einhvern, af hverju þá ekki mig?“ segir hún.

„Mottóið mitt í þessu er að vera ekki að draga sjálfa mig niður. Ég nenni ekki að eyða orku í það enda margt annað í heiminum sem maður getur dregið sig niður fyrir. Ég ákvað að hugsa bara ekki um þetta. Ef ég fæ kast þá glími ég við það en annars ætla ég bara að halda áfram með líf mitt.“

Hér er hægt að heita á Ingu Maríu.

Móðir Ingu Maríu hvatti hana til að taka þátt í …
Móðir Ingu Maríu hvatti hana til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. ljósmynd/Úr einkasafni
Inga María ásamt systkinum sínum.
Inga María ásamt systkinum sínum. ljósmynd/Úr einkasafni
Bróðir Ingu Maríu hefur staðið með henni í gegnum veikindin.
Bróðir Ingu Maríu hefur staðið með henni í gegnum veikindin. ljósmynd/Úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert