Ekkert annað að gera en að hefjast handa

Guðmundur Felix og Sylwia Nowakowska, unnusta hans, hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu …
Guðmundur Felix og Sylwia Nowakowska, unnusta hans, hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu síðustu helgi.

„Ég býst við að heyra frá læknunum í næstu viku og nú er ekkert annað að gera en að hefjast handa,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson, sem beðið hefur eftir ágræðslu handleggja í borginni Lyon í Frakklandi í rúm tvö ár. Hann missti báða handleggi sína í vinnuslysi árið 1998 er hann brenndist við vinnu við háspennulínu.

Heimild fyrir ágræðslu heilla handleggja í Frakklandi var numin úr gildi skömmu eftir að Guðmundur Felix fór utan, en síðan þá hafa hann og læknar hans unnið að því að fá reglum um ágræðslur breytt og þar með aðgerðina samþykkta. Það fékkst í gegn í vor og í kjölfarið fór Guðmundur Felix í ítarlegar rannsóknir. Þær komu vel út og nú hefur verið ákveðið að gera aðgerðina eins fljótt og kostur er á.

Allt annar handleggur

Eitt af því sem hefur tafið aðgerðina er inntaka ónæmisbælandi lyfja. Sá sem fær ágrædda handleggi þarf að vera á slíkum lyfjum og var talið að of miklar aukaverkanir gætu fylgt því að vera lyfjunum og fara í jafn viðamikla aðgerð. Guðmundur hefur verið á ónæmisbælandi lyfjum frá árinu 2002 þegar hann fékk nýja lifur og segir það hafa bæði flækt málin og liðkað fyrir. „Það sýnir sig að ég þoli vel að vera á þessum lyfjum. En í kerfinu var ekki gert ráð fyrir einhverjum sem fengi ágrædda handleggi og hefði verið á ónæmisbælandi lyfjum. Ég passaði engan veginn inn í kerfið. Ég var allt annar handleggur.“

Þarf að hafa hraðar hendur

Guðmundur Felix segir að í næstu viku verði byrjað að leita handleggjagjafa. Hann segir að gjafinn muni koma frá Lyon eða næsta nágrenni. „Það er allt annað með handleggi en líffæri, sem oft eru flutt langar vegalengdir í kæli. Handleggirnir verða fjarlægðir og settir strax á mig, gjafinn verður í næstu stofu við mig. Það þarf að hafa hraðar hendur.“

Eftir aðgerðina þarf Guðmundur Felix líklega að vera á sjúkrahúsinu í einn mánuð og síðan tekur endurhæfing við. Hann segir aðgerðina sjálfa kosta á bilinu 100.000-120.000 evrur, 15-18 milljónir íslenskra króna. Þennan kostnað mun hann bera sjálfur ásamt kostnaði við dvöl á endurhæfingarsjúkrahúsi þar sem mánuðurinn kostar hátt í 50.000 evrur. „Ég á fyrir aðgerðinni og einum mánuði á endurhæfingarsjúkrahúsinu, en ég er að reyna að fá það í gegn að ég fái sjálfur að ráða starfsfólk af spítalanum í heimaþjónustu, en það kostar miklu minna. Síðan stefni ég á endurhæfingu á Reykjalundi.“

Átti að gerast fyrir löngu

Guðmundur Felix hefur haldið til í Lyon í Frakklandi síðan í júní 2013, en hann hefur stefnt að því að komast í aðgerðina frá árinu 2007. Á sjúkrahúsinu þar í borg, Hopital Edouard Herriot, starfar hópur lækna sem hefur sérhæft sig í ágræðslum handa, en Guðmundur Felix yrði sá fyrsti sem fengi ágrædda handleggi.

Fyrst stóð til að hann færi í aðgerðina í september 2013, henni var síðan frestað þar til í október sama ár og hefur síðan verið frestað margoft.

Nú hefur öllum hindrunum verið hrint út vegi og Guðmundur segist aldrei hafa verið kominn jafn nálægt aðgerðinni og nú. „Þetta átti auðvitað að gerast fyrir löngu. Það er alltaf eitthvað sem kemur upp á, en það hefur aldrei hvarflað að mér að gefast upp.“

Athugasemd mbl.is:

Í fréttinni sem birtist í Morgunblaðinu er haft eftir Guðmundi að hann stefni á endurhæfingu á Reykjalundi. Guðmundur mismælti sig og hið rétta er að hann stefnir á endurhæfingu á Grensás.

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert