Enn heitavatnslaust í Skólavörðuholti

Unnið að viðgerð við Ásvallagötu í morgun.
Unnið að viðgerð við Ásvallagötu í morgun. Ljósmynd/Orkuveitan

Enn er heitavatnslaust á stórum hluta Skólavörðuholtsins en heitt vatn er komið á í vesturbæ Reykjavíkur. Um tíma upp úr hádegi rann heitt vatn niður Njarðargötu á milli niðurfalla á meðan verið var að leita að bilun en brugðist hefur verið við því. Svæðið var vel vaktað á meðan á því stóð.

Fólki er bent á að passa að heitavatnskranar séu ekki opnir á meðan á viðgerð stendur til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju.

Yfir þrjátíu manns frá Orkuveitu Reykjavíkur vinna nú að viðgerð á svæðinu, en bilun varð í heitavatnsæð í nótt eftir viðgerð á loka í dælustöð í Öskjuhlíð.

Búist er við að viðgerðir standi fram á kvöld. Fólk sem verður vart við heitt vatn á götum á svæðinu er beðið um að láta þjónustuvakt Orkuveitunnar vita í síma 516 6000, segir í tilkynningu frá Orkuveitunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert