Hafa greint stöðuna kolvitlaust

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Svo virðist sem þátttaka Íslands í þvingunaraðgerðum ESB og Bandaríkjanna gegn Rússlandi vegna aðgerða Rússlands gagnvart Úkraínu og innlimunar Krímskaga í Rússland muni valda íslenskum fiskútflytjendum tjóni. Ekki verður séð að stjórnvöld hafi lagt mat á mögulegar afleiðingar áður en ákvörðun var tekin um þátttöku íslands. Utanríkisráðuneytið hefur bersýnilega greint stöðu mála kolvitlaust.“

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda vegna þeirrar stöðu sem upp er komin vegna viðskiptabanns Rússlands gegn Íslandi. Þar segir að athyglisvert sé að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og aðrir ráðamenn skuli jafnskjótt og Rússar tilkynntu um innflutningsbann á íslenskar sjávarafurðir hafa rokið til og boðað bætur og ríkisstyrki til stórútgerðarinnar vegna þess tjóns sem hún kunni að verða fyrir vegna lokunar Rússlandsmarlaðar í ljósi mikils hagnaðar hennar af uppsjávarveiðum á liðnum árum.

„Stuðningur stjórnvalda við stórútgerðina hefur verið óbilandi. Nýjasta dæmi þess er tilaun sjávarútvegsráðherra til að kvótasetja makríl og setja smábátaútgerð undir kvótakerfi síðastliðið vor. Hvaða almennu hagsmuni var sjávarútvegsráðherra að vernda með tilraun sinni til kvótasetningar á smábátasjómenn? Enga aðlögun átti að gefa við kvótasetningu makríls heldur einungis að horfa tvö ár aftur í tímann við ákvörðun úthlutunar,“ segir ennfremur.

Fram kemur að stórútgerðin hafi selt makríl í miklu magni inn á Rússlandsmarkað á lágu verði á sama tíma og makríll hafi verið framleiddur sem hágæðavara af öðrum og seld úr landi á margföldu því verði. Sá makríll hafi yfirleitt verið veiddur af smábátasjómönnum. Því skjóti skökku við að stjórnvöld skuli bjóða stórútgerðinni bætur og aðstoð að fyrra bragði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert