Heitt vatn streymir upp úr götum

Sigurgeir Sigurðsson

Varað er við slysahættu þar sem heitt vatn streymir upp úr götum í vesturbæ Reykjavíkur. Tilkynningar hafa borist af slíku á Freyjugötu og Ásvallagötu. Fólk er beðið um að fara að öllu með gát. Búið er að loka svæðunum og tryggja aðstæður á þeim stöðum. Vart hefur orðið við leka í kjöllurum húsa í miðborg. Starfsfólk frá Orkuveitu Reykjavíkur er að störfum á svæðunum.  

Uppfærð frétt: Búið er að tryggja svæðið

Ef fólk verður vart við að heitt vatn nái upp á yfirborð í götum er bent á að hafa samband við þjónustuvakt Orkuveitu Reykjavíkur í síma 516-6200. 

Fólki í vesturbæ Reykjavíkur, Þingholtum, Skólavörðuholti og miðborg er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana, segir í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Vegna viðgerðar á loka í dælustöð í Öskuhlið í nótt féll niður þrýstingur á heitu vatni í Skólavörðuholtinu og vesturbæ Reykjavíkur.

Í framhaldinu sprungu heitavatnslagnir í nokkrum götum.

Eins og áður segir er fólki á svæðinu bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Eins og er er ekki hægt að segja til um hvenær heitt vatn kemst á að nýju en unnið er að viðgerð eins hratt og mögulegt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert