Kattaeitrun í Hveragerði staðfest

Kötturinn Morgann er einn af nokkrum köttum sem drápust skyndilega …
Kötturinn Morgann er einn af nokkrum köttum sem drápust skyndilega í Hveragerði á aðeins fáeinum dögum. Ljósmynd/Theodora Ponzi

Grunur íbúa í Hveragerði um að eitrað hafi verið fyrir ketti í bænum hefur verið staðfestur.

Gunnar Þorkelsson, héraðsdýralæknir Suðurlands, segir málið hafa legið nokkuð ljóst fyrir eftir að grunsamlegt fiskiflak fannst í garði í bænum en að líkleg dánarorsök í það minnsta þriggja dýra hafi verið staðfest með krufningu á hræi eins þeirra. 

„Það var eitrað fyrir kettina. Við lítum þetta að sjálfsögðu mjög alvarlegum augum,“ segir Gunnar. Hann vill ekki gefa upp opinberlega nákvæmlega hvaða eitur fannst í kettinum sem var krufinn en segir það valda dýrum óbærilegum kvölum.

Gunnar veit um þrjá ketti sem drápust en segir að ekki allir dauðir eða veikir kettir rati á borð dýralækna. Sögur í bænum segi að sex kettir hafi drepist og tveir hundar veikst. Málið hefur nú verið kært og er í höndum lögreglunnar á Selfossi. 

„Ég er hæfilega bjartsýnn á að gerandinn finnist en með þessu erum við búin að senda út skilaboðin: Ekki gera þetta aftur. Við sjáum til hvernig þessu vindur fram en ef við finnum hann verður farið fram á málsókn.“

Fyrri fréttir mbl.is um málið:

Ekki fyrsta atrenna meints kattakvalara

Talið að eitrað hafi verið fyrir dýr

Undrast áhugaleysi lögreglunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert