Safnar fyrir sýrlenskan flóttamann

Myndin sem Gissur deildi á Twitter-síðu sinni af flóttamanninum í …
Myndin sem Gissur deildi á Twitter-síðu sinni af flóttamanninum í Beirút. mynd/Gissur Símonarson

Þúsundir dollara söfnuðust á örfáum klukkutímum fyrir sýrlenskan flóttamann eftir að íslenskur maður hóf söfnun til styrktar honum á hópfjármögnunarsíðunni Indiegogo. Íslendingurinn birti mynd af manninum með dóttur sinni að selja penna á samfélagsmiðlum og fór söfnunin á mikil flug upp frá því. 

Gissur Símonarson, sem lýsir sér sem áhugamanni um alþjóðastjórnmál og stríðsátök, birti mynd af manninum á Twitter-síðu sinni á miðvikudag. Í kjölfarið fékk hann fjölda skilaboða frá fólki sem vildi aðstoða flóttamanninn, að því er segir í frétt The Independent.

Gissur lýsti því þá yfir að hann ætlaði að reyna að hafa uppi á flóttamanninum. Hann stofnaði Twitter-síðuna #BuyPens og aðeins um hálftíma síðar setti maður sem sagðist sjá flóttamanninn á hverjum degi í hverfinu sínu í samband. Sólahring síðar lá fyrir að flóttamaðurinn heitir Abdul, einstæður faðir tveggja barna, en fjögurra ára gömul dóttir hans Reem er með honum á myndinni. Talið er að þau séu Sýrlendingar af palestínskum uppruna sem hafast við í Yarmouk-flóttamannabúðunum í Damaskus.

Í kjölfarið hratt Gissur af stað söfnun á Indiegogo til að styrkja Abdul og fjölskyldu hans. Meira en 5.000 dollarar söfnuðust á fyrsta hálftímanum og eftir þrjár klukkustundir nam söfnunarféð rúmum 15.000 dollurum. Þegar þetta er skrifað hafa rúmir 45.000 dollarar safnast, jafnvirði tæpra sex milljóna króna.

Í viðtali við The Independent segir Gissur að hann hafi sett sig í samband við Unicef til þess að tryggja öryggi Abduls. Hann hugleiði að stofna sjóð fyrir hann sem hann gæti fengið greitt mánaðarlega úr.

Frétt The Independent af söfnuninni

Twitter-síðan #BuyPens

Indiegogo-fjáröflunarsíðan

Gissur Símonarson
Gissur Símonarson
Abdul og Reem eftir að búið var að hafa uppi …
Abdul og Reem eftir að búið var að hafa uppi á þeim, að því er segir á Twitter-síðunni #BuyPens. Af Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert