Finnst þau ekki nógu góðir foreldrar

Mörgum fátækum foreldrum finnst erfitt að senda börnin með notað …
Mörgum fátækum foreldrum finnst erfitt að senda börnin með notað skóladót. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Eggert Jóhannesson

Hjálparstofnun kirkjunnar veitir efnalitlum foreldrum hátt í þrjú hundruð grunnskólabarna styrk vegna kostnaðar sem fellur til í upphafi skólaársins og er það svipaður fjöldi og síðustu ár.

Þá hafa hátt í sjötíu framhaldsskólanemar fengið aðstoð síðustu vetur. Mörgum fátækum foreldrum finnst erfitt að senda börnin með notað skóladót og eru hræddir við að það veki athygli á fátæktinni.  

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, segir foreldra grunnskólabarna sjálfa leita eftir aðstoð en námráðgjafar í framhaldsskólum aðstoði reglulega nemendur sem koma ekki með bækur í skólann þar sem foreldrar hafi ekki efni á að kaupa þær.

Kostnaður meiri hjá yngstu börnunum

Tekið var á móti umsóknum hjá Hjálparstarfi kirkjunnar um það leyti sem skólarnir hófust og er fólk enn að koma að sögn Vilborgar. Þarfir fólksins eru misjafnar en oft er meiri kostnaður vegna barna sem eru að hefja skólagöngu og unglinga í efstu bekkjum grunnskólans. Stofnunin er í samstarfi við A4 sem rekur verslanir víða um land.

„Sumir þurfa að koma beint til grunnskólans og kaupa gögnin þar og þá kemur fólk með greiðslukvittun og fær endurgreitt frá okkur. Fólk kemur alveg fram í byrjun september,“ segir Vilborg. Foreldrar grunnskólabarnanna sækja flestir sjálfir eftir aðstoð og segir hún að oft sé um að ræða fólk sem hafi áður komið og óskað eftir aðstoð og sé þar af leiðandi búið að skila inn gögnum sem sýna fram á tekjur fólksins.

„Þetta  fólk er svo sannarlega fátækt og á rétt hjá okkur,“ segir Vilborg. Þegar fer að líða á september og börn og unglingar eru ekki komin með bækur í skólann vísa grunnskólakennarar, félagarráðgjafar eða námsráðgjafar á Hjálparstarf kirkjunnar. Komi menntaskólanemendur ekki með bækur í skólann kanna námsráðgjafarnir ástæðu þess. „Við reynum að leysa úr vanda þessara nemenda eins og við getum, við viljum alls ekki að þeir þurfi að hætta námi.“

Margir sem leita aðstoðar koma jafnt og þétt yfir árið til Hjálparstarfs kirkjunnar en annar hópur kemur tvisvar á ári, fyrir jólin og við skólabyrjun. „Þetta eru mjög þungir mánuðir,“ segir Vilborg.

Viðhorfið breyttist eftir hrunið

Hún segir hópinn sem kemur til stofnunarinnar mjög óöruggan. Hún nefnir sem dæmi að jafnvel þó að mörgum finnist í lagi að senda börn sín með notuð skólagögn í skólann, gildi það ekki alltaf um skjólstæðinga þeirra. „Það verður allt að vera í lagi, annars finnst þeim þau ekki vera nógu góðir foreldrar,“ segir Vilborg og bætir við að foreldrarnir séu einnig hræddir um að vekja athygli á bágum aðstæðum þeirra.

Vilborg hefur starfað lengi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar og þetta er því svo sannarlega ekki fyrsta haustið sem hún tekur á móti foreldrum skólabarna. Hún er þakklát fyrir viðhorfsbreytingu sem varð eftir bankahrunið.

„Þá breyttust listarnir sem börnin komu með. Það helst alveg ennþá hjá næstum öllum skólum, þessi skilaboð til foreldranna að nota skóladótið sem hægt er að nota frá fyrra ári. Ég er svo glöð að þetta viðhorf er áfram í vetur. Þrátt fyrir umræðu um að kreppan sé búin eru skólarnir enn meðvitaðir um þetta, sem betur fer,“ segir Vilborg. Þá eru hlutirnir á innkaupalistanum ekki jafn veglegir og fyrir hrun, nú gæti skynsami og það sé jákvætt.

Hafa ekki farið í frí saman í mörg ár

Einnig er veitt aðstoð vegna tómstunda, til að mynda ef frístundakortið dugar ekki fyrir þeim gjöldum sem þarf að greiða. Þá hefur Hjálparstarf kirkjunnar einnig boðið upp á sumarbúðir fyrir fátækar fjölskyldur í samvinnu við Hjálpræðisherinn en þar fá fjölskyldurnar tækifæri til að fara í sumarfrí saman.  

„Við höfum borgað sumarbúðir í mörg ár fyrir börnin en fjölskyldan öll hefur kannski ekki gert neitt saman að sumri til í mörg ár. Það eru foreldrar og börn sem eru saman í viku á Úlfljótsvatni í skemmtilegri dagskrá,“ segir Vilborg.

Skólanum fylgir nokkur kostnaður fyrir foreldra.
Skólanum fylgir nokkur kostnaður fyrir foreldra. Styrmir Kári
Félagsráðgjafar í framhaldsskólum kanna aðstæður nemenda sem mæta ekki með …
Félagsráðgjafar í framhaldsskólum kanna aðstæður nemenda sem mæta ekki með bækur í skólann og vísa á Hjálparstarf kirkjunnar ef við á. Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert