Hitt húsið opnar í Elliðaárdal

Hitt húsið mun flytja inn í húsnæðið að Rafstöðvarvegi 7-9 …
Hitt húsið mun flytja inn í húsnæðið að Rafstöðvarvegi 7-9 í Elliðaárdal. Þar var Bootcamp áður til húsa. Eggert Jóhannesson

Hitt húsið er þessa dagana að flytja hluta af starfsemi sinni í húsnæði við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal, en þar verður lögð áhersla á starfsemi fyrir fatlaða gesti hússins. Markús H. Guðmundsson, forstöðumaður Hins hússins, segir í samtali við mbl.is að nýja húsið sé algjör himnasending fyrir starfsemina og muni létta mikið á starfinu í Pósthússtræti, en hann segir að þar hafi starfsemin verið búin að sprengja utan af sér.

Búið er að innrétta neðri hæðina í húsnæðinu við Rafstöðvarveg 9a fyrir Hitt húsið, en efri hæðin verður svo afhend seinna í vetur. Samtals er um að ræða 730 fermetra, en neðri hæðin er um 400 fermetrar.

Jákvæð afleiðing af miklum vinsældum

Markús segir að þetta sé í raun jákvæð afleiðing af miklum vinsældum. Undanfarið eitt og hálft ár hefur Hitt húsið verið á höttunum eftir húsnæði og segir Markús að þarna hafi þeir fundið staðsetningu sem passi nákvæmlega fyrir þær hugmyndir sem stjórnendur Hins hússins höfðu. Þannig sé húsnæðið á grænum stað, nálægt skíðabrekku og litlum golfvelli. Einnig sé stutt í sund og á hestbak og hægt að nýta allt sem Elliðaárdalurinn hefur upp á að bjóða.

Aðlögun fyrir starfsmenn og gesti hússins hófst að litlu leyti í þessari viku, en Markús segir að hún muni halda áfram í næstu viku. Til að byrja með er gert ráð fyrir að um 20 fatlaðir gestir geti verið í nýja húsnæðinu, ásamt um 20 starfsmönnum.

Áfram starfsemi í miðbænum

Hitt húsið verður áfram með aðstöðu í Pósthússtræti 3-5 í miðbænum, en Markús segir þetta kærkomna viðbót. „Þótt Pósthússtrætið sé frábært, þá er aðgengi fyrir fatlaða ekki fullkomið. Þarna verður sú aðstaða eins og best er á kosið.“ Hann segir þó að áfram verði starf fyrir fatlaða í Pósthússtræti, en að þessi viðbót muni létta heilmikið á aðstöðuskorti sem var til staðar í miðbænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert