Söngskóla Sigurðar vart hugað líf

Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz
Gunnar Guðbjörnsson, skólastjóri Söngskóla Sigurðar Demetz Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Söngskóli Sigurðar Demetz stendur mjög illa fjárhagslega en tónlistarskólarnir í Reykjavík eru fórnarlömb deilunnar milli ríkis og borgar um hver beri ábyrgð á því að greiða fyrir tónlistarnám á miðstigi og framhaldsstigi.

Gunnar Guðbjörnsson, annar skólastjóra Söngskóla Sigurðar Demetz, segir að skólanum sé vart hugað líf fáist ekki lausn í deiluna sem allra fyrst. Ákvörðun hafi verið tekin um að halda áfram rekstri skólans en litlu hafi munað að skólinn segði upp kennurum og einfaldlega lokaði.

Hins vegar hafi hann átt í viðræðum við stjórnmálamenn og embættismenn borgarinnar undanfarna daga og fundið fyrir þverpólitískum vilja til þess að bjarga skólanum út þetta rekstrarár.

Stefnt er að endurskipulagningu tónlistaskólakerfisins í Reykjavík fyrir haustið 2016, því skiptir miklu máli að leysa þann bráðavanda sem kominn er upp núna svo hægt verði að reka skólann út árið.

„Það var sest að borðinu í vor með ríki, sambandi sveitarfélaga og Reykjavíkurborg og það var kominn vísir að samkomulagi um að leysa þennan bráðavanda. Það kom svo ekki í ljós fyrr en seinna að ríkið ætlaði sér ekki að vera hluti af björgunarpakkanum; við stóðum í þeirri trú í allt sumar að samþykki Alþingis fyrir ákveðnum hluta af lausninni væri grænt ljós á heildarlausnina,“ segir Gunnar og bætir við að mögulega hefði verið hægt að leita annarra lausna eða loka skólanum ef ekki hefði verið staðið í þeirri trú um að lausn hefði fundist í málinu.

Hann segir jafnframt að nú með haustinu verði mál Tónlistarskólans Reykjavíkur gegn Reykjavíkurborg tekið fyrir, en það muni skýra enn frekar hvort að sá skilningur sem önnur sveitarfélög hafa lagt í lögin, um að sveitarfélögunum beri að greiða fyrir tónlistarnám, sé ekki örugglega réttur.

Á meðan verið sé að fá lausn í málið þurfi skólinn að grípa til allra sparnaðaraðgerða sem hugsast geti. „Nú um daginn málaði ég sjálfur gluggana en þeir þörfnuðust viðhalds, við stefnum svo að því að skipta með okkur skrifstofustörfum á móti kennslu og munum að öllum líkindum skúra gólfin sjálf,“ segir Gunnar.

„Manni verður hugsað til orða Gylfa Þ. Gíslasonar, þegar hann talar um að vísindin og stjórnmálin geti leyst ákveðin vandamál en til að gera mann hamingjusaman, þarf maður fyrst og fremst listir og ástir. Því biðla ég til stjórnmálamanna og fólksins í landinu að greiða fyrir lausn í málinu,“ segir Gunnar.

Frétt mbl.is: Borgin beri ábyrgð á tónlistarnámi

Frétt mbl.is: Engar ákvarðanir teknar um tónlistarnám framhaldsskólanema

Frétt mbl.is: Tónlistarskólar í greiðsluvanda fá fyrirframgreiðslu

Frétt mbl.is: „Mér finnst það auðvitað alveg hörmulegt“

Frétt mbl.is: Tónlistarskólar stefna í gjaldþrot

Nokkrir tónlistarskólar í Reykjavík hafa verið í limbó vegna deilunnar …
Nokkrir tónlistarskólar í Reykjavík hafa verið í limbó vegna deilunnar milli ríkis og borgar um hver á að fjármagna nám á mið- og framhaldsstigi. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert