Tilraun með gerðardóm mistókst

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að tilraun með gerðardóm hafi …
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að tilraun með gerðardóm hafi mistekist. Eggert Jóhannesson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að tilraun til þess að útkljá vinnudeilur með lagasetningu og gerðardómi hafi mistekist. Að löggjafinn hafi staðið illa að lagasetningunni í kringum gerðardóm og afleiðingarnar hafi verið þær að dómurinn var ekki í samræmi við launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Hann segir það þó einnig einkennilegt af dómnum fyrst að vilji löggjafans var til þess að samræmis yrði gætt, að hann hafi ekki haft samráð við þá aðila sem gerðu samninga eftir 1. maí. Einkum og sér í lagi þegar það kom svo í ljós að gerðardómur fór rangt með mat á samningum sem voru gerðir eftir 1. maí.

Hann segir þó erfitt að gagnrýna gerðardóminn sem slíkan, vegna þess að löggjafinn lagði upp með rúmar forsendur, auk þess sem að ríkislögmaður hafi haldið því fram að orðalagið væri ekki bindandi fyrir dóminn og að Hæstiréttur hafi fallist á þann málflutning.

„Það er dálítið erfitt að gagnrýna gerðardóminn því hann vinnur út frá þeim forsendum sem upp var lagt með og löggjafinn lagði upp með rúmar forsendur. Þannig að gerðardómur horfir á málið frá allt öðru sjónarhorni en því sem er að gerast á vinnumarkaðinum,“ segir Gylfi og bætir við að sambærilegar, stéttir og hjúkrunarfræðingar og háskólamenn, á almennum vinnumarkaði hafi fengið um 14-15% hækkanir.

„Gerðardómur kemst að þeirri niðurstöðu að það sé eðlilegt að horfa til þess hvaða hlutfallsbreytingar lágtekjufólk hefur fengið og síðan úrskurða tekjuhærri hópum um sömu prósentuhækkun. Vitnað er sérstaklega til lækna og það er vitað að læknar eru í efstu 5% tekjukúrvunnar og það er talið eðlilegt að þeir fái sömu hlutfallshækkun og lægstu 5% á vinnumarkaði,“ segir Gylfi.

Gylfi segir einnig að dómurinn sé sjálfkrafa fordæmisgefandi þar sem að ríkið hafi bundið samninga framhaldsskólakennara við launahækkanir BHM. Að allar hækkanir BHM umfram 2% myndu bætast við hækkanir framhaldsskólakennara. Ennfremur hafi aðildarfélög ASÍ lagt fram tillögur að launastefnu í vor sem talið var að gæti aukið kaupmátt en einnig haldið stöðugleika. Aðildarfélög Alþýðusambandsins áskilji sér þó rétt til þess að taka samninga upp aftur, ef að aðrar launahækkanir verði töluvert hærri, í gegnum svokallað forsenduákvæði. 

Aðspurður hvort að niðurstaða dómsins yrði til þess að aðildarfélög ASÍ muni virkja forsenduákvæði í sín í febrúar 2016 segir Gylfi: 

„Ég ætla ekki að fara að botna það hvaða ákvörðun aðildarfélög Alþýðusambandsins taka í febrúar 2016 en það gefur hins vegar augaleið að kjarasamningur til tveggja ára sem gefur meira en kjarasamningur til fjögurra ára, það er eitthvað meira í þeim samningum heldur en þeim sem okkar aðildarfélög gerðu. Sérstaklega þegar tekið er mið af sambærilegum tekjuhópum. Yfirskrift þessa samnings var að reyna að hækka laun lægstu tekjuhópa þannig að hækkanir sambærilegra tekjuhópa Alþýðusambandsins á við háskólamenn eða hjúkrunarfræðinga væru á bilinu 14-15%. Það gefur augaleið að þá er hægt að virkja forsenduákvæði. Það verður hins vegar að fjalla um það á þeim tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert