Afrakstur 11 ára vinnu frumsýndur

Chiwetel Ejiofor fer með eitt aðalhlutverka í kvikmyndinni Z for …
Chiwetel Ejiofor fer með eitt aðalhlutverka í kvikmyndinni Z for Zachariah. AFP

Á föstudaginn var kvikmyndin Z for Zacharia frumsýnd í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum. Myndin hefur fengið lof gagnrýnenda í New York Times og Deadline og hlýtur 80% einkunn á kvikmyndasíðunni Rotten Tomatoes. Aðalframleiðendur myndarinnar eru Skúli Malmquist, Þórir Snær Sigurjónsson og faðir hans Sigurjón Sighvatsson.

Þetta er fyrsta ameríska myndin sem feðgarnir framleiða saman en myndin hefur verið í vinnslu allt frá 2004 þegar ZikZak, framleiðslufyrirtæki Skúla og Þóris, keypti réttinn að myndinni. Myndin var því í vinnslu í ellefu ár.

Listræn og lítil á Hollywood-mælikvarða

Á mælikvarða Hollowood er myndin listræn og tiltölulega lítil að sögn Sigurjóns, sem mbl.is ræddi við á föstudag. Kostnaðurinn við myndina var sjö milljónir dollarar eða um milljarður íslenskra króna. Aðeins þrír leika í myndinni en hún fjallar um þrjá eftirlifendur kjarnorkustyrjaldar, líf þeirra, samskipti og ástir.

Leikararnir þrír eru þó langt frá því að vera óþekktir en þetta eru þau Chiwetel Ejiofor sem lék aðalhlutverkið í 12 Years a Slave og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir frammistöðu sína, Chris Pine sem hefur meðal annars leikið í Star Trek myndunum og Margot Robbie sem lék eiginkonu Leonardo DiCaprio í kvikmyndinni Wolf of Wall Street.

Aðspurður hvort spennustigið sé ekki hátt um þessar mundir, í ljósi þess hve mikið velti á því að áhorfendum líki við myndina svo hún sé fjárhagslega arðbær, segir Sigurjón alltaf mikla spennu ríkja við frumsýningu. Hins vegar hafi honum tekist að selja réttinn að myndinni fyrir meira en framleiðslukostnað á meðan hún var enn í tökum svo að fjárhagslega séu þeir í góðum málum.

Ástæðan fyrir því að hægt var að selja myndina svo snemma var meðal annarra sú að fyrir fjórum til fimm árum komst handrit myndarinnar á svokallaðan „Blacklist“, sem þýðir að handritið sé eitt af þeim bestu í Hollywood. Í framhaldinu kom Tobey Maguire, sem er hvað þekktastur fyrir leik sinn í Spiderman, að máli við framleiðendur og lýsti yfir áhuga á að leika í myndinni. Sigurjón segir að hann hafi ekki passað í hlutverkið en þeir voru að leita að einhverjum sem væri hreinlega líkamlega sterkbyggðari.

Tobey hafi hins vegar haft svo mikinn áhuga að hann gerðist meðframleiðandi myndarinnar. Einnig fengu þeir aðstoð Gary Ross, sem leikstýrði fyrstu Hungurleika-myndinni, en hann er þekktur handritshöfundur og hjálpaði til við að fínpússa handritið. 

Áhætta við leikaravalið

Sigurjón segir að ákveðin áhætta hafi verið við val á leikurum því að undanskyldum Chris Pine hafi leikarar myndarinnar ekki verið mikið þekktir á þeim tíma sem þeir voru ráðnir. „Það var ákveðin áhætta í því að gera þetta þannig. Í dómunum, á Deadline.com og NY Times og fleiri stöðum, er almennt talað um hvað leikaravalið er gott. En á þessum tíma, þegar við vorum að ráða þá til verksins, hafði 12 Years A Slave sem að Chiwetel Ejiofor ekki komið út ennþá og hann tiltölulega óþekktur,“ segir Sigurjón og bætir við að það hafi verið erfitt að sannfæra fjármögnunaraðila um að Margot Robbie hafi verið rétta manneskjan í verkið en áður höfðu bæði Keira Knightley og Amanda Seyfried lýst yfir áhuga á að leika kvenhlutverkið. 

Að lokum hafi þó tekist að sannfæra fjármagnsaðila myndarinnar um að Margot Robbie væri besti kosturinn í kvenhlutverkið og að í dag sjái enginn eftir því, enda er hún orðin stórstjarna í Hollywood.

Sigurjón Sighvatsson er einn aðalframleiðenda kvikmyndarinnar Z for Zachariah ásamt …
Sigurjón Sighvatsson er einn aðalframleiðenda kvikmyndarinnar Z for Zachariah ásamt Skúla Malmquist og Þórði Snæ Sigurjónssyni. Zack Gemmell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert