Lýsa eftir vitnum að slysinu

mbl.is

Lögreglan á Suðurlandi lýsir eftir vitnum að bílslysinu á Suðurlandsvegi við ána Klifanda í dag en kona lést í slysinu. Ökumaður bifreiðarinnar er alvarlega slasaður og var fluttur til Reykjavíkur í þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Hinir farþegarnir tveir eru ekki taldir alvarlega meiddir en voru einnig fluttir á Landspítala í þyrlu Gæslunnar. Lögregla hefur ekki upplýsingar um ástand fólksins eftir komuna á spítalann.

Slysið átti sér stað um kl. 15 en rannsókn stendur yfir á orsökum þess. Að sögn Þorgríms Óla Sigurðssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns á Selfossi, verður farið  yfir bifreiðina auk þess sem fólkið verður yfirheyrt.

Hann hvetur þá sem kunna að hafa orðið vitni að slysinu til að hafa samband við lögreglu. Það má m.a. gera með því að hringja í 112.

Fjórir voru um borð í bifreiðinni, allt erlendir ferðamenn; tvær konur og tveir karlar. Þorgrímur segist ekki telja að börn hafi verið í bílnum.

Frétt mbl.is: Banaslys á Suðurlandsvegi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert