Skoruðu á strákana í rugby

Undanfarna mánuði hefur verið átak hér á landi í eflingu á kvennarugby. Það er skemmst frá því að segja að vel hefur gengið og nú er svo komið að stelpurnar skoruðu á strákana í þeirra fyrsta leik. Leikurinn fór fram í gær.

Leikið var með svokölluðu „touch“ fyrirkomulagi þar sem í stað tæklinga þarf að ná að snerta andstæðing með tveim höndum til þess að stöðva sókn.

„Við erum búnar að reyna að stofna stelpulið í nokkur ár. Ég byrjaði að spila með strákunum árið 2010 og þetta hefur alltaf verið hugmynd,“ segir Sigurbjörg Jónsdóttir, talsmaður kvennarugby á Íslandi, við mbl.is.

„Við náðum loksins í ár að halda hópinn og vorum orðnar býsna margar og þá í byrjun ágúst kom sú hugmynd að við gætum spilað við strákana til að fá leikreynslu.

Þetta var í fyrsta skipti sem rugby lið eingöngu skipað konum spilar leik hér á landi. Vonir standa til þess að senda kvennalið á opið mót í Kaupmannahöfn að ári þar sem karlalið Rugbyfélags Reykjavíkur hefur verið að gera góða hluti undanfarin ár.

Leiknir voru tveir leikir og höfðu strákarnir betur í þeim báðum. Aðspurð um framhald kvennaliðsins segir Sigurbjörg ljóst að þær muni halda áfram að spila rugby. „Hins vegar fer helmingurinn af liðinu erlendis í vetur, þannig að við verðum fáar eftir en við höldum áfram. Það er alltaf pláss fyrir fleiri stelpur í rugby.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert