Sviptingar í veðrinu næstu daga

Það rætist úr veðrinu fyrir austan.
Það rætist úr veðrinu fyrir austan. mbl.is/Styrmir Kári

Miðað við stöðuna í veðurkortunum má gera ráð fyrir sviptingum í veðri næstu daga. Áttin snýst ur austlægri yfir í vestlæga og það má búast við vætu vestanlands en þurru austan til.

„Það er verið að spá allt öðruvísi veðri en verið hefur. Ríkjandi áttir hafa verið austlægar síðustu vikurnar en það er spáð ríkjandi suðvestan og vestanáttum næstu tíu daga,“ segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur við mbl.is. Trausti bloggar einmitt um þessi miklu umskipti á heimasíðu sinni.

„Það er spáð háum þrýstingi en hann hefur verið lágur. Það á að rigna um landið vestanvert og haldast þurrt austanlands, öfugt við það sem verið hefur.“

Trausti segir að þrátt fyrir þessi umskipti muni ekki verða kalt á Suður- og Vesturlandi. „Það er hlýtt loft sem kemur að  þannig að það kólnar ekki mikið hér en það verður daufara veður á höfuðborgarsvæðinu. Við getum ekki talað um kulda. Hins vegar verður miklu betra veður fyrir norðan og austan en verið hefur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert