Einstæð móðir býður húsaskjól

Fólki, sem býður flóttafólki þak yfir höfuðið eftir komuna til landsins, fjölgar stöðugt og skiptir þar engu hvernig fólk býr eða hvort það hafi mikið á milli handanna. mbl.is heimsótti í dag fólk sem hefur boðist til að hýsa heilu fjölskyldurnar fyrstu mánuðina eftir komuna til landsins. Borgný Haraldsdóttir er einstæð móðir með nýfætt barn og Kristín Dögg Kristinsdóttir er starfsmaður hjá Hrafnistu en þær eru á meðal þeirra sem hafa boðist til að hýsa flóttamenn, komi þeir til landsins frá Sýrlandi.

Mikill fjöldi fólks hefur boðið fram aðstoð sína við að taka á móti flóttafólki frá Sýrlandi á facebook-síðunni: Kæra Eygló - Sýrland kallar. Misjafnt er að  hvað fólk býður en ófáir hafi boðist til að fá fólk inn á heimili sín tímabundið. Kristín Dögg býr í 4 herbergja íbúð í Hafnarfirði og hún segist tilbúin til að taka á móti 4 manna fjölskyldu. Þá hefur fólk boðist til að gefa tíma sinn og nauðsynjavörur til fólks.

Í myndskeiðinu er rætt við Kristínu, Borgnýju ásamt þeim Baldvini Albertssyni og Jóhönnu Sesselju Erludóttur sem eru einnig tilbúin til að opna heimili sín fyrir flóttamönnum. Þá er rætt við Björn Teitsson, upplýsingafulltrúa Rauða Krossins, sem segir 660 manns hafa skráð sig sem sjálfboðaliða í málaflokki hælisleitenda á síðasta sólarhring sem sé algerlega fordæmalaust.

Það var rithöfundurinn Bryndís Björgvinsdóttir stofnaði síðuna en að sögn Björns eru aðstandendur hennar farnir að safna saman upplýsingum um hvað fólk er tilbúið til veita í aðstoð til flóttafólks, komi það til landsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert