Ekki verslað meira erlendis

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli hafa ekki orðið varir við að Íslendingar …
Tollverðir á Keflavíkurflugvelli hafa ekki orðið varir við að Íslendingar versli meira erlendis. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfirtollvörður hjá embætti tollstjóra segist ekki merkja að Íslendingar séu farnir að versla í auknum mæli erlendis eins og formaður Samtaka verslunar og þjónustu sagði við mbl.is um helgina. Landsmenn virðist hins vegar ferðast oftar og fara í styttri ferðir.

Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, sagði að verslun á fatnaði og skóm hafi minnkað um 10% hér á landi á einu ári og að það væri vegna þess að fólk verslaði í auknum mæli erlendis.

„Það er náttúrulega mun meiri fjöldi fólks sem fer til útlanda, bæði útlendingar sem koma hingað en það er líka meira af Íslendingum sem fara erlendis. Ferðirnar eru að breytast. Fólk er að fara oftar og fara styttri ferðir en við merkjum ekkert aukna verslun hjá okkur, alls ekki,“ segir Kári Gunnlaugsson, yfirtollvörður.

Farþegar sem koma til landsins geta komið með varning að andvirði 88.000 króna. Kári segir töluvert um að fólk gefi sig fram í rauða hliðinu og greiði toll fari það umfram þau mörk, sérstaklega ef það sé að kaupa dýr tæki eins og tölvur, spjaldtölvur eða myndavélar.

Tollverðir verði ekki mikið varir við að fólk í verslunarferðum reyni að laumast í gegnum græna hliðið með tollskyldan varning. Verslunarferðir eins og þær sem Icelandair auglýsti nýlega þar sem farþegar fá tösku að gjöf og frían flutning á henni hefjist þó ekki fyrr en í haust.

Fyrri fréttir mbl.is:

„Fólk verslar í auknum mæli í útlöndum“

Hraðtilboðsauglýsing Icelandair hækkaði blóðþrýstinginn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert