40 þúsund eldri borgarar

Alls voru 9,2% eldri borgara á stofnun, einkum stofnunum fyrir …
Alls voru 9,2% eldri borgara á stofnun, einkum stofnunum fyrir aldraða. Eggert Jóhannesson

Eldri borgarar 65 ára og eldri voru alls 40.282 hinn 31. desember 2011 samkvæmt manntalinu sem Hagstofa Íslands tók þann dag. Það jafngildir 12,8% mannfjöldans. Hlutfallslega bjuggu flestir eldri borgarar í Laugardal austur í Reykjavík en fæstir á Völlunum í Hafnarfirði.

Atvinnuþátttaka eldri borgara er mikil hér á landi. Alls náði hún 20,6% í árslok 2011 þegar allir 65 ára og eldri voru taldir. Í aldurshópnum 65-69 ára var atvinnuþátttakan 53,2% en 5,7% hjá sjötugum og eldri.

Alls voru 9,2% eldri borgara á stofnun, einkum stofnunum fyrir aldraða. Hlutfallið eykst eftir aldri. Um 30% þeirra sem eru á aldrinum 85-89 ára dvöldust á stofnun en yfir helmingur níræðra og eldri.

Alls voru 4.897 íbúðir á landinu ætlaðar til búsetu fyrir eldra fólk, þar af voru 864 fyrir studda búsetu, 2.406 sem virkniíbúðir í tengslum við öldrunarstofnanir en 1.627 með aldurskvöðum. Flestar voru þessar íbúðir í eigu íbúanna sjálfra, en umtalsverður hluti í eigu sveitarfélaga, húsnæðissamvinnufélaga eða félagasamtaka.

Þetta og fleira kemur fram í Hagtíðindum sem Hagstofan hefur nú gefið út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert