Aldraðir íbúar stefna borginni

Íbúarnir telja að ákvörðun borgarinnar brjóti í bága við ákvæði …
Íbúarnir telja að ákvörðun borgarinnar brjóti í bága við ákvæði samninga og laga. ljósmynd/Já.is

Aldraðir íbúar fjölbýlishússins Þorragötu 5-9 hafa stefnt Reykjavíkurborg vegna einhliða ákvörðunar velferðarráðs borgarinnar að loka dagdvöl fyrir aldraða sem um árabil hefur verið starfrækt í Þorraseli, Þorragötu 3, og flytja þjónustuna að Vesturgötu 7. Húsnæðið við Þorragötu 3 verður nú nýtt í frístundastarfsemi fyrir börn og unglinga.

Fram kemur í tilkynningu, að íbúarnir telji að ákvörðun borgarinnar brjóti í bága við ákvæði samninga og laga. Hún gangi einnig þvert á þær forsendur sem hafi legið til grundvallar við skipulag lóðarinnar, hönnun húsnæðisins og kaupum íbúanna á fasteignum sínum í fjölbýlishúsinu en innangengt er í þjónustumiðstöðina úr húsinu.

Bent er á, að borgarráð Reykjavíkur hafi á sínum tíma veitt byggingarleyfi á lóðinni fyrir fjölbýlishús og þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Samkomulag sé í gildi milli húsfélagsins og Reykjavíkurborgar að breytingar á skipulagi hvors lóðarhluta séu háðar samþykki beggja aðila, enda komi fram í lóðaleigusamningi að lóð 3-9 við Þorragötu sé ein lóð og á henni séu kvaðir sem beri að uppfylla, m.a. um þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Breytingar á nýtingu húsnæðisins við Þorragötu 3 er einnig brot á lögum um fjöleignarhús en ekki hefur fengist samþykki íbúa fjölbýlishússins Þorragötu 5-9 fyrir breytingunum.

„Lokun dagdvalarinnar í Þorraseli og breytingar á nýtingu húsnæðisins munu hafa miklar og neikvæðar afleiðingar fyrir aldraða íbúa Þorragötu 5-9 og aðra notendur þjónustuselsins, skapa þeim umtalsvert óhagræði og skerða bæði lífsgæði þeirra og vellíðan.

Íbúar við Þorragötu 5-9 nýta sér þjónustu Þorrasels en dagdeildin er úrræði fyrir einstaklinga sem búa í heimahúsum en þurfa félagslegan stuðning.  Þar er boðið upp á mat, félagsstarf, handavinnu, léttar leikfimiæfingar og aðstoð við böðun. Einnig er hægt að fá þar sjúkraþjálfun, fót- og hársnyrtingu,“ segir í tilkynningu húsfélagsins Þorragötu 5-9.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert