Aurum Holdings-málið frestast

Lárus Welding (l.t.v.) er á meðal sakborninga í Auru-málinu.
Lárus Welding (l.t.v.) er á meðal sakborninga í Auru-málinu. mbl.is/Þórður

Fyrirtöku á kröfu sérstaks saksóknara um að Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari, víki sæti í Aurum Holdings-málinu hefur verið frestað um tvær vikur því verjendur telja að ekki liggi fyrir á hverju krafan byggi. Ljóst er því að aðalmeðferð málsins mun sömuleiðis frestast um óákveðinn tíma.

Hæstiréttur ómerkti sýknudóm yfir þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Lárusi Welding, Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Bjarna Jóhannessyni, fv. eigendum og stjórnendum Glitnis, í apríl og vísaði málinu aftur í hérað. Í júlí gerði sérstakur saksóknari kröfu um að dómarinn í málinu víki.

Krafan var tekin fyrir í Hérðasdómi Reykjavíkur í morgun en verjendur sakborninganna lögðu fram bókun þar sem þeir mótmæltu að það lægi ekki fyrir á hvaða forsendum krafan byggði. Var fyrirtökunni því frestað til 14. september.

Ákæra sérstaks saksóknara snýst um félagið Aurum Holdings Limited sem áður hét Goldsmiths, Mappin & Wepp og WOS. Í málinu voru ákærðir þeir Lárus, Jón Ásgeir, Magnús Arnar og Bjarni fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis banka til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited.

Sérstakur saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi og fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna. Magnús Arnar gegndi starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis og Bjarni var viðskiptastjóri sama banka. Lárus er fyrrverandi forstjóri Glitnis banka og Jón Ásgeir einn aðaleigandi bankans.

Jón Ásgeir Jóhannesson.
Jón Ásgeir Jóhannesson. mbl.is/Þórður Arnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert