Bankasýslan boði til hluthafafundar

Bæjarráð Vestmannaeyja hyggst óska eftir því við Bankasýslu ríkisins að boðað verði til hluthafafundar í Landsbankanum svo fljótt sem verða megi vegna áforma bankans um að reisa nýjar höfuðstöðvar á svonefndum Hörpureit við Reykjavíkurhöfn. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðsins frá 18. ágúst.

Bæjarráð Vestmanneyja hafði áður óskað eftir því við Landsbankann að boðað yrði til hluthafafundar vegna málsins en Vestmannaeyjabær er hluthafi í bankanum. Þeirri ósk var hins vegar hafnað af Landsbankanum bréfleiðis og eru viðbrögð bankans harðlega gagnrýnd í fundargerð bæjarráðsins.

„Bæjarráð gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirliggjandi bréf og bendir stjórnendum bankans á að almennt sé gert ráð fyrir jafnræði hluthafa varðandi upplýsingar og helsti vettvangur til þess séu hluthafafundir. Fáheyrt verður að telja að neita beiðni eigenda um að ræða stefnumótun og fá aðgengi að upplýsingum sem ekki lúta bankaleynd.“

Bæjarráðið vísar meðal annars í leiðbeiningarreglur um góða stjórnhætti fyrirtækj sem Landsbankinn segist fylgja þar sem meðal annars segi: „Hluthafar skulu þannig eiga þess kost að gera stjórn félagsins grein fyrir viðhorfum sínum tengdum rekstri þess og leggja spurningar fyrir stjórnina.“ Í ljósi viðbragða bankans telji bæjarráð sig tilneytt að óska eftir því við Bankasýsluna að boðað verði til hluthafafundar.

„Bæjarráð felur bæjarstjóra að óska eftir því við Bankasýslu ríkisins að svo fljótt sem verða má
verði boðað til hluthafafundar þar sem sérstaklega verði fjallað um byggingu nýrra
höfuðstöðva á verðmætustu lóð í landinu og móta eigendastefnu þar að lútandi,“ segir í lok fundargerðarinnar um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert