Lögreglumaður hékk á bifreið á ferð

mbl.is/Þórður

Ríkissaksóknari hefur ákært tæplega þrítugan karlmann fyrir að stofna lífi lögreglumanns í háska á ófyrirleitinn hátt. Maðurinn neitaði að verða við fyrirmælum lögreglumannsins um að stöðva bifreið og ók á brott er lögreglumaðurinn hékk á opinni ökumannshurðinni sem sveiflaðist til og frá.

Ákæran á hendur manninum var gefin út í byrjun júní. Hún er í tveimur liðum og varðar brot sem voru framin í maí í fyrra. 

Í fyrri lið ákærunnar er maðurinn sakaður um umferðarlagabrot, með því að hafa ekið fólksbifreið sviptur ökurétti, norður Eiríksgötu við Skólavörðuholt í Reykjavík, uns lögreglumaður stöðvaði aksturinn við götuna.

Í öðrum lið ákærunnar, er maðurinn ákærður fyrir lögreglulagabrot og hættubrot. Maðurinn fór ekki að fyrirmælum lögreglumannsins sem bað hann um að drepa á bifreiðinni heldur ók hann henni af stað og ók um áttatíu og fimm metra á sama tíma og lögreglumaðurinn reyndi að koma í veg fyrir áframhaldandi akstur mannsins. 

Ökumaðurinn varnaði því að lögreglumaðurinn kæmist inn í bifreiðina og að kveikjuláslyklunum og varð ekki við ítrekuðum fyrirmælum lögreglumannsins um að stöðva bifreiðina heldur jók hraða hennar.

Meðan á akstrinum stóð frá Eiríksgötu og norður Frakkastíg að innkeyrslu við Tækniskólann, þar sem akstrinum lauk, var lögreglumaðurinn með fæturna á síls bifreiðarinnar og hékk á opinni ökumannshurðinni sem sveiflaðist til og frá. Með þessu stofnaði ákærði lífi og heilsu lögreglumannsins í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt, að því er segir í ákæru

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur nk. fimmtudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert