Langkaldast á Vestfjörðum og við Breiðafjörð

Frá Ísafirði.
Frá Ísafirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Meðalhiti í Reykjavík í ágústmánuði mældist 11,3 stig en það er 0,8 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en -0,8 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 9,3 stig og er það í meðallagi áranna 1961 til 1990. Á Höfn í Hornafirði var meðalhiti 10,7 stig og 9,8 á Egilsstöðum. Þetta kemur fram á vef Veðurstofu Íslands.

Á landinu var að tiltölu hlýjast í Skaftafelli í ágúst, en langkaldast á Vestfjörðum og við Breiðafjörð utanverðan. Þar var hiti allt að -2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Sérlega úrkomusamt var um landið norðan- og norðaustanvert og var metúrkoma á nokkrum stöðvum. Sunnanlands var úrkoma nærri meðallagi.

Úrkoman í Reykjavík mældist 66,2 mm og er það um um 7 prósent umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990.  Í Stykkishólmi mældist úrkoman aðeins 72,2 mm og er það um 40 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 79,4 mm og er það meira en tvöföld meðalúrkoma í ágústmánuði og sú mesta í ágúst síðan 1992. Litlu minni úrkoma mældist þó í ágúst 2005.  

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 158,1 í síðasta mánuði og er það 3 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 en 23 stundum undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 104,5 og er það 31 stund færri en í meðalári. Færri sólskinsstundir mældust á Akureyri í ágúst 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert