„Viðræður þokast í rétta átt“

Samninganefndir Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Samtaka atvinnulífsins funduðu í gær hjá ríkissáttasemjara vegna almenns kjarasamnings. Guðmundur Ragnarsson, formaður VM segir að skipst hafi verið á skoðunum um ýmis mál. Boðuð vinnustöðvun VM hefst á miðnætti 6. september.

 „Við getum sagt að viðræðurnar hafi þokast í rétta átt og á fundi sem boðaður er á morgun er fyrirhugað að láta reyna enn frekar á þær hugmyndir sem ræddar voru á fundinum í gær,
þannig að ég er hóflega bjartsýnn,“ segir Guðmundur á heimasíðu VM.

„Hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma, leggja 1.800 félagsmenn niður vinnu. Það er því ekki langur tími til stefnu, vinnuveitendur hljóta að átta sig á stöðunni. Vonandi kemst alvöru hreyfing á viðræðurnar á fundinum í karphúsinu á morgun. Markmiðið er auðvitað að semja áður en til vinnustöðvunar kemur,“ segir Guðmundur ennfremur.

Áttar sig ekki á stöðunni í álversdeilu

Þá var einnig fundað vegna kjaraviðræðna við Rio Tinto Alcan. Guðmundur segir að fundurinn hafi verið án árangurs og að staðan í deilunni hafi tekið á sig hinar undarlegustu myndir. 

„Forstjóri álversins og stjórnendur SA tala ítrekað um alvarlegt ástand í verksmiðjunni.
Það er hins vegar sama hvað við leggjum til í viðræðunum, ekkert virðist vera til umræðu nema það sem álverið og vinnuveitendur hafa lagt fram.  Við höfum til dæmis talað fyrir styttri samningi, vegna óvissu á álmörkuðum.

Í gær lögðum við fram ákveðnar tillögur að fyrirkomulagi um næstu skref í viðræðunum. Einhverra hluta vegna tóku vinnuveitendur dræmt í þær tillögur, rétt eins og nægur tími væri til stefnu.

Satt best að segja átta ég mig ekki á stöðunni. Einn daginn er talað um alvarlegt ástand í verksmiðjunni og hinn daginn virðist ekkert liggja á að gera nýjan samning,“ segir Guðmundur á heimasíðu VM.

Næsti samningafundur vegna kjaraviðræðna við Rio Tinto Alcan hefur verið boðaður nk. föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert