Aðeins 15 sumardagar á Akureyri

Samkvæmt skilgreiningu Trausta Jónssonar voru 26 sumardagar í Reykjavík í …
Samkvæmt skilgreiningu Trausta Jónssonar voru 26 sumardagar í Reykjavík í sumar. mbl.is/Styrmir kári

Veður á algengum grilltímum, úrkoma, ský og meðalhiti eru allt þættir sem Trausti Jónsson veðurfræðingur tekur til greina þegar hann skilgreinir sumardaga. Í nýjustu færslu hans á blogginu Hungurdiskum kemur fram að samkvæmt skilgreiningu hans hafi sumardagar hafi reynst 26 í Reykjavík en ekki nema 15 á Akureyri.

Í færslu Trausta frá árinu 2013 segir:

„Við lítum á daglegar athuganir í Reykjavík klukkan 12, 15, 18 og 21. Þetta er algengur grilltími, en tekur ekki til morgunathafna - enda segjast menn þá vera svo hressir að veðrið skipti engu máli. Við viljum að það sé alveg úrkomulaust að minnsta kosti þrjá af þessum athugunartímum, við setjum okkur líka fyrir að úrkoma frá 9 til 18 mælist minni en 2 mm.

Þetta þýðir að við leyfum skammvinna smáskúr. Við viljum líka að ekki sé alskýjað á öllum athugunartímunum fjórum - en erum að öðru leyti ekki kröfuhörð á sólina. Að lokum viljum við að meðalhiti athugunartímanna fjögurra sé að minnsta kosti 13,1 stig - eða að hámarkshitinn kl. 18 sé meiri en 15 stig.“

Fyrsti sumardagurinn 26. júní

Sumardagarnir reyndust samkvæmt þessu vera 26 í Reykjavík í ár og kom sá fyrsti 26. júní.

„Þetta er tvöfalt meðaltal áranna 1961 til 1990 og líka tvöfaldur fjöldi ársins 2013. Dagarnir eru heldur færri en í fyrra – en samt verður útkoman að teljast viðunandi – allavega langt yfir almennri flatnesku kalda  tímabilsins sem miðaldra og eldri lesendur muna svo vel. - En auðvitað líka mun færri en á öndvegissumrum áranna 2003 til 2012. 

Fyrsti sumardagurinn kom 26. júní - þá urðu dagarnir svo sex í röð (5 í júní). Júlísumardagarnir voru 13 - og í ágúst voru þeir 8. Sumardagalíkur eru ekki miklar í Reykjavík í september - en koma þó stöku sinnum - ef - þá gjarnan fleiri en einn.“

Aðeins einn sumardagur í júlí

Akureyringar fengu ekki marga sumardaga í sumar, aðeins eða aðeins fimmtán. Einn sumardagur kom snemma, eða í apríl en jafnmargir voru í júlí.

„Sumardagarnir á Akureyri teljast ekki nema 15 í ár og hafa aldrei verið færri á öllu viðmiðunartímabilinu (frá og með 1949) - voru 16 sumarið 1979. Meðaltalið 1961 til 1990 er 36. 

Einn sumardagur skaut upp kollinum í apríl, í júní voru þeir 5, aðeins einn í júlí (aldeilis með endemum á þessum annars sumargóða stað). Ágúst bætti aðeins um betur, sumardagarnir í þeim mánuði urðu 8.

Mjög líklegt er að einhverjir bætist við í september, að meðaltali koma 5 sumardagar á Akureyri eftir 1. september, þannig að trúlega fer sumarið 2015 upp fyrir 1979 (og e.t.v. fleiri) þegar upp verður staðið. Annars er aldrei á vísan að róa. 

Lesendur ættu að hafa í huga að sumrinu er formlega ekki lokið og eru að venju beðnir um að taka talninguna ekki alvarlega, hún er leikur,“ segir í færslu Trausta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert