Drónar bannaðir á Ljósanótt

AFP

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur gefið út tilmæli um að flug hvers kyns ómannaðra loftfara eða flygilda, svonefndra dróna, verði ekki yfir byggð eða þar sem mannfjöldi er samankominn á Ljósanæturhátíð í Reykjanesbæ.

Tilmælin eru byggð á ábendingu um að slík flygildi kunni að bila auk þess sem dæmi séu um að stjórnendur þeirra á jörðu niðri hafi misst stjórn á þeim og þau flogið út í buskann. Bent er á að ákveðnar reglur gildi um loftför hér á landi. Þó ekki sé sérstaklega fjallað um dróna í lögum nr. 60/1998 um loftferðir sé þar engu að síður að finna ákvæði sem heimili ráðherra að takmarka eða banna loftferðir almennt eða að hluta á íslensku yfirráðasvæði eða yfir því vegna almannaöryggis eða allsherjarreglu.

Einnig er vísað í lögreglulög nr. 90/1996 um hlutverk lögreglu við að tryggja öryggi borgaranna og að koma í veg fyrir að því sé raskað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert