Rúta föst í Krossá

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg/Þorsteinn Jónsson

Í gærkvöldi fóru björgunarsveitirnar Hella, Víkverji, Dagrenning og Bróðurhöndin til aðstoðar rútu sem sat föst í Krossá. Var hún ógangfær og föst í bremsu. Engir farþegar voru í rútunni en þegar sveitirnar voru kallaðar út rétt fyrir miðnætti var bílstjórinn enn í bílnum, segir í frétt frá Landsbjörgu.

Sveitirnar fóru á staðinn með sín öflugustu tæki; Foden trukk, Unimog og jeppa auk þess sem traktor var á staðnum. Þegar þær komu að var bílstjórinn kominn í hús og því enginn í hættu. Vinna við að ná rútunni upp stóð fram eftir nóttu en settir voru vírar í hana og loftslöngur græjaðar svo ná mætti henni úr bremsu. Eftir nokkurt bras tókst ætlunarverkið og þeir 20 björgunarmenn sem þátt tóku voru komnir á heimaslóðir rétt fyrir klukkan 05:00 í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert