Ólga vegna lokunar grunnskóla

Til stendur að breyta skólahaldi á Hvanneyri.
Til stendur að breyta skólahaldi á Hvanneyri. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrirhuguð lokun grunnskólans á Hvanneyri hefur valdið megnri óánægju. Sveitarstjórn Borgarbyggðar ætlar að ræða við íbúana á fundi í kvöld. Stjórnarmaður í Íbúasamtökum Hvanneyrar og nágrennis býst við miklum hitafundi. Svo mikil sé óánægjan að rætt hafi verið um að slíta sveitina úr Borgarbyggð.

Sveitarstjórnin ákvað að loka grunnskólanum á Hvanneyri eftir þetta skólaár á fundi sínum 11. júní. Starfsræktur hefur verið deild innan Grunnskóla Borgarfjarðar fyrir 1.-4. bekk á Hvanneyri sem hét áður Andakílsskóli.

Birgitta Sigþórsdóttir, stjórnarmaður í Íbúasamtökum Hvanneyrar og nágrennis, segir að íbúar á Hvanneyri hafi krafist þess að sveitarstjórnin fundaði með þeim áður en ákvörðunin var tekin en við því hafi ekki verið orðið. Á fundinum, sem hefst kl. 20 í Landbúnaðarháskólanum, ætli sveitarstjórnin að kynna íbúunum þær hagræðingaraðgerðir sem fyrirætlaðar eru fyrir grunnskólann.

Íbúarnir hafi kallað eftir gögnum um ákvörðunina frá því að þeir fengu fyrst veður af því að hún vofði yfir í mars. Sveitarstjórnin hafi ekki skilað gögnum um hvað sparist með því að loka skólanum.

„Ákvörðunin og allt ferlið á bak við hana hefur verið afskaplega ábótavant að mati stjórnar íbúasamtakanna. Málið hefur ekki fengið réttan farveg í nefndum og samráð við íbúa ekki verið til staðar. Hluti gagnanna sem sveitarstjórn reynir að nota til að réttlæta þessa ákvörðun eru úrelt og önnur hreinlega röng. Það er afskaplega vont að horfa á kjörna embættismenn okkar vinna svona," segir Birgitta.

Þá segir hún að embættismenn og kjörnir fulltrúar Borgarbyggðar hafi reynt að beita íbúa þrýstingi svo þeir hætti að tjá sig um málið. Óánægjuna segir hún svo mikla að rætt hafi verið í ýmsum hornum sveitarfélagsins að slíta gömlu Borgarfjarðarsveit úr Borgarbyggð.

Hlusti ekki á nein rök

Birgitta segist eiga von á því að mikill hiti verði í fólki á fundinum í kvöld. Íbúar hafi reynt að halda uppi rökum um mikilvægi þess fyrir allt sveitarfélagið að skólinn verði áfram á Hvanneyri.

„Þau hlusta ekki á nein rök. Það er eins og þetta sé pólitísk ákvörðun sem skiptir ekki máli hvað kostar. Það eigi bara að loka þessum skóla,“ segir Birgitta.

Birgitta segir íbúa gera sér fulla grein fyrir því að miklir erfiðleikar séu í rekstri sveitarfélagsins. Ýmsar aðrar leiðir séu hins vegar færar í hagræðingaraðgerðum en að loka skólanum. Bjart sé framundan í Borgarbyggð, mikil uppbygging og atvinnusköpun.

„Hvanneyri er eitt af lykilsvæðunum í þessum uppgangi, án nokkurs vafa. Þangað hafa fjölmargar fjölskyldur flutt á undanförnum mánuðum. Grundvöllur fyrir því að slík fjölgun haldi áfram er að grunnskóli verði á staðnum, fyrir utan það að það er algjörlega fordæmalaust að loka grunnskóla í 300 manna þéttbýli. Við erum algjörlega sannfærð um það að það sé hagur alls sveitarfélagsins að hafa grunnskóla á Hvanneyri og munum við tala fyrir þeim málstað í kvöld," segir Birgitta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert